Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Samstaða um að banna rútur í miðbænum

21.07.2015 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri segir að fyrir liggi samkomulag um að takmarka umferð rútubifreiða um miðborg Reykjavíkur. Hann segir að nú sé aðeins beðið því að lögreglustjóri staðfesti reglurnar.

„Við ætlum að takmarka umferð allra bíla sem eru meira en 8 metra langir. Það mun gilda um mest allt miðborgarsvæðið. Það er býsna góð samstaða milli okkar og lögreglunnar í þessu,“ segir Dagur.

Hann bætir því við að ferðaþjónustan hafi líka fullan skilning á því að nauðsynlegt sé að taka á vandamálum sem fylgi stórum rútum í miðbænum.

„Það sem við erum að gera samhliða er að skilgreina sleppisvæði á vissum stöðum, í jaðri þessa svæðis, þannig að farþegum er þá skilað á þessa staði. Þeir geta þá komið sér þaðan inn á hótelin,“ segir Dagur.

Dag­ur seg­ir að regl­ur um akst­ur í borg­inni séu háðar samþykki lög­reglu­stjór­ans á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég á von á því að lögreglustjórinn muni staðfesta þessar reglur fljótlega og skiltin komi upp í kjölfarið,“ segir Dagur.

Þannig að það gæti orðið strax í ágúst?

„Ég treysti mér ekki til að nefna dagsetningu, en alveg á næstunni já,“ segir Dagur.

Dagur útskýrir að borgarstjórn hafi gefið út tilmæli síðasta haust um að ferðaþjónustuaðilar myndu minnka umferð stórra ökutækja um miðborgina.

„Það hefur bara greinilega ekki verið nóg. Svo að núna skilgreinum við þetta bann og setjum upp þar til gerð skilti,“ segir Dagur.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV