Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samskiptin við ríkið helsta áskorunin

28.09.2018 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir mikilvægast að efla samskipti sveitarfélaganna við ríkið. Það sé brýnt að tryggja sveitarfélögunum meiri pening til að geta sinnt starfi sínu svo vel sé.

Fyrsta konan í formannsembættið

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, var kosin nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi sambandsins á Akureyri í dag. Hún er fyrst kvenna til að gegna formennsku innan sambandsins, sem var stofnað 1945.

Halldór Halldórsson, fráfarandi formaður, tók við embætti fyrir 12 áum. Tveir voru nú í framboði til formanns, Aldís og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Aldís hlaut rúmlega 60 prósent atkvæða. Þetta var 32. landsþing SÍS og eru þau haldin á fjögurra ára fresti. Einnig var kosið í nýja ellefu manna stjórn.

Auka hlutdeild tekna hjá sveitarfélögunum

Aldís segir að hún ætli að setja samskipti ríkis og sveitarfélaga á oddinn sem formaður sambandsins.

„Að tryggja sveitarfélögum og sveitarstjórnarstiginu aukna hlutdeild í tekjum til að standa straum af þeim mikilvægu verkefnum sem sveitarfélögin eru að sinna. Ég held að lykillinn að því sé að eiga góð samskipti og reglulega fundi.  og ná þessum samskiptum oosem þarf að vera á milli ríkis og sveitarfélaga og þessum skilningi sem verður að vera á þeim verkefnum sem við bæði erum að sinna lögum samkvæmt og sem sveitarfélögin hafa tekið að sér að sinna kannski án þess að það sé lögbundin skylda,” segir Aldís. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV