Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samskiptagjáin milli flokkanna hefur minnkað

04.12.2016 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samskiptagjáin milli flokkanna fimm sem hyggjast fara í stjórnarmyndunarviðræður hefur minnkað, segir þingflokksformaður Pírata. Hún telur líklegra að flokkarnir nái saman nú en þegar síðustu viðræður fóru út um þúfur.

 

Píratar hafa fundað stíft alla helgina og undirbúið stjórnarmyndunarviðræðurnar framundan. Þingflokkur þeirra fundaði í dag til að leggja lokahönd á undirbúninginn.

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að meðal annars hafi ríkisfjármálin verið skoðuð og framhaldið undirbúið. Stefnt sé að því að ná niðurstöðu í mál sem ekki náðist saman um síðast, þar á meðal fjármögnun útgjalda, sjávarútveg og landbúnað.

Þetta náðist ekki saman síðast, eru meiri líkur á að það gerist núna? „Já ég myndi telja það út af því að við í raun og veru vorum komin mjög langt.“

Sátt hefði náðst um stjórnarskrármál, og fjármögnun kosningaloforða og þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB voru langt komin. Nú sé þetta spurning um að flokkarnir kynnist. „Það eru búnar að eiga sér stað samræður inn á milli þó að það hafi ekki verið margir formlegir fundir og ég skynja það að sú samskiptagjá sem var í gangi af því að fólk þekkti ekki hvort annað almennilega fer stöðugt minnkandi.“

Og þetta er ekki eina breytingin. „Núna erum við að fara í þetta frá miðjunni og teygja hægri og vinstri saman, þannig að það er kannski stóri póllinn sem hefur breyst í þessum viðræðum,“ segir Birgitta.

Þingmenn Viðreisnar hafa gagnrýnt þá ákvörðun forsetans að veita Birgittu umboðið á föstudaginn. Hún segir gagnrýnina aðallega hafa snúið að því að umboðið var veitt á þeim tíma. „Við erum ekki að taka þessu persónulega og þetta flækir ekki málin fyrir okkur.“

Birgitta hyggst ræða við leiðtoga hinna flokkanna fljótlega. „Mér finnst mjög mikilvægt að við ákveðum sjálf, allir þessir formenn, verklagi í sameiningu, og þegar það er búið þá mun það verða kynnt.“
 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV