Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samræmd próf halda áfram í dag

08.03.2018 - 06:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samræmd könnunarpróf í stærðfræði verða í dag lögð fyrir alla níundu bekkinga landsins, alls rúmlega fjögur þúsund nemendur. Menntamálastofnun telur að tekist hafi að fyrirbyggja að samskonar vandamál komi upp í dag og gerðist í íslenskuprófinu í gær. Þá komu upp tæknileg vandamál sem gerðu það að verkum að nemendur gátu ekki tekið prófið og senda varð stóran hluta nemenda heim.

Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að talið sé að lausn á vandanum sé fundinu og að prófakerfið ráði við álagið í prófinu í dag og í samræmda prófinu í ensku sem er á morgun. 

Forstjóri Menntamálastofnunar átti fund í gær með mennta-og menningarmálaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins til að fara yfir stöðuna. Í tilkynningunni kemur fram að ráðuneytið ætli að boða þá sem málið snerti til fundar í næstu viku. Þar verði lögð áhersla á að nemendur njóti alls vafa og að tæknilegu vandamálin í gær bitni ekki á þeim.