Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Samnýtingarhagkerfið

09.02.2015 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Í litlum bæ í Svíþjóð er búið að setja á stofn frístundabanka. Þar eru hvorki reiknaðir vextir né rukkuð þjónustugjöld, enda sýslar þessi banki með útivistarvörur en ekki peninga. Bankinn er dæmi um svokallað samnýtingarhagkerfi sem víða hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu misserin.

Stefán Gíslason segir nánar frá því í Samfélaginu. Og pistilinn má lesa hér að neðan.

Deje er einn þriggja þéttbýlisstaða í Forshaga kommun í Värmland, eða í Fosshagahreppi eins og sveitarfélagið heitir væntanlega á íslensku. Sveitarfélagið styður við starfsemi frístundabankans enda er starfsemin til þess fallin að auka lífsgæði bæjarbúa, bæði í heilsufarslegu og fjárhagslegu tilliti. Fólk getur sem sagt afhent frístundabankanum ýmsa hluti sem það notar sjaldan og þannig gefið öðrum tækifæri á að njóta þessara sömu gæða sér að kostnaðarlausu. Enn sem komið er hefur áherslan einkum verið á útivistarbúnað af ýmsu tagi og þessa dagana er mikið að gera í bankanum við útlán á ýmiss konar skíðabúnaði, skautum, sleðum, hjálmum og þar fram eftir götunum. Aðstandendur bankans sjá hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að láta starfsemina ná til miklu fleiri vöruflokka, t.d. til tóla og tækja til garðvinnu. Þarna liggja að þeirra mati veruleg tækifæri, án þess þó að nokkur sé að hugsa um að hafa beinan fjárhagslegan hagnað af starfseminni.

 Frístundabankinn í Deje hefur nú verið rekin í hálft annað ár. Bankinn er hluti af stærra verkefni í Värmland sem hefur það m.a. að markmiði að koma upp frístundabanka í öllum sveitarfélögum á svæðinu, enda stuðli það að því að öll börn í sveitarfélögunum geti notið útivistar með svipuðum hætti og jafnaldrarnir, óháð efnahag foreldra. Nú þegar hafa allmargir bæir fetað í fótspor Deje hvað þetta varðar.

 Frístundabankinn í Deje er eitt margra dæma um svokallað samnýtingarhagkerfi. Í slíku kerfi skiptir ekki öllu máli að eiga hlutina, heldur aðallega að geta notið þeirrar þjónustu sem hlutirnir veita. Jafnvel Íslendingar eru farnir að þekkja dæmi um slíkt, þar sem algengt er orðið að bláókunnugt fólk fái far hvert með öðru á milli staða og skipti með sér bensínkostnaði, pyngjunni og umhverfinu til hagsbóta.

 Rannsóknir benda til að þrátt fyrir smæð einstakra verkefna sé samnýtingarhagkerfið komið á slíkt flug víða um heim að það geti engan veginn lengur flokkast sem sérviska eða tómstundagaman. Þannig hefur verið reiknað út að samnýting, útlán, leiga, kaup og sala á notuðum hlutum manna á milli sé orðinn einn sjötti af hagkerfi Bandaríkjanna, og þessi starfsemi er líka farin að skipta verulegu máli á Spáni, í Hollandi og í Englandi. Starfsemin er til þess fallin að auka lífsgæði fólks, en jafnframt getur hún hugsanlega dregið úr hagvexti. Þeir sem fá snjóþotu lánaða í frístundabanka þurfa nefnilega ekki að kaupa nýja. Það er því engin furða að stjórnvöld og stórfyrirtæki víða um heim fylgist grannt með vexti samnýtingarhagkerfisins.

 Það segir sig náttúrulega sjálft að samnýtingarhagkerfinu geta fylgt ýmis vandamál, rétt eins og öllum öðrum kerfum. Þannig hefur Neytendastofnun Svíþjóðar (Konsumentverket) varað við því að í svona viðskiptum milli einstaklinga geti menn auðveldlega ratað inn á grá svæði, bæði út frá sjónarhóli neytendaverndar og skattalaga. Neytendalöggjöfin snúist jú um sambandið á milli atvinnurekanda og neytanda í þeim tilgangi að vernda þann sem minna má sín, þ.e.a.s. neytandann. Hér sé hins vegar enginn atvinnurekandi í spilinu og þá komi löggjöfin ekki að notum.

 Airbnb er líklega það fyrirtæki sem hefur grætt hvað mest á samnýtingarhagkerfinu, en eins og margir vita snýst starfsemi fyrirtækisins um að tengja saman fólk sem vill leigja út herbergi eða íbúðir á meðan það leggst sjálft í ferðalög. Airbnb tekur fáein prósent af öllum viðskiptum sem það kemur nálægt, er komið með starfsemi í 190 löndum og gengur hrikalega vel, svo vitnað sé nokkurn veginn beint í umfjöllun sænska sjónvarpsins. Þar eru menn samt líka á gráu svæði að margra mati, því að starfsemin þrífst á barmi hins hefðbundna hagkerfis og raskar samkeppnisstöðu hefðbundnari sölu á gistirými.

 Vöxtur samnýtingarhagkerfisins minnir mann á það að kannski þarf enginn að eiga hluti ef hann bara getur fengið þjónustuna sem hlutirnir veita. Þannig þarf í sjálfu sér enginn að eiga ísskáp. Maður þarf bara að geta haldið matvælum köldum svo að þau skemmist ekki. Það er alveg hægt þó að einhver annar eigi ísskápinn eða jafnvel þótt enginn eigi ísskáp, svo fremi sem hægt er finna einhverja aðra álíka auðvelda leið að sama markmiði.

 Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. En það verður alla vega spennandi að sjá hvernig samnýtingarhagkerfið þróast á næstu árum. Og eins er spennandi að sjá hvort Íslendingar fylgist með þessum straumi sem virðist vera að myndast frá skilyrðislausu eignarhaldi til sameiginlegrar nýtingar eða hvort við höldum áfram að keppa um það hver okkar eigi „mest af drasli þegar hann drepst“.