Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samningur um stórframkvæmdir við Þeistareyki

04.11.2016 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Allir verktakar við Þeistareykjavirkun starfa eftir svokölluðum Samningi um stórframkvæmdir og eru því skuldbundnir til að virða íslenska kjarasamninga. Þar hefur þrisvar þurft að hafa afskipti af verktakafyrirtækinu G&M sem ítrekað hefur brotið á starfsmönnum sínum.

Í útboðum vegna Þeistareykjavirkjunar og öllum samningum sem gerðir voru í kjölfarið eru ákvæði um að í gildi sé Samningur um stórframkvæmdir. Hann er á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands og tók gildi 2008. Hann felur í sér að aðbúnaður starfsfólks, öryggi og launakjör séu virt, enda starfi jafnan margir verktakar, innlendir og erlendir við stórframkvæmdir.

Gildir um aðalverktakann og alla undirverktaka

„Þessar skuldbindingar í rauninni gilda um aðalverktakann og alla hans undirverktaka," segir Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar. Hann segir að vegna Samnings um stórframkvæmdir hafi frá upphafi framkvæmda á Þeistareykjum starfað ákveðinn hópur að því að fylgja eftir málum verkamanna sem þar séu sviknir um laun.

G&M þrisvar staðnir að því að brjóta samninginn

„Eins og þekkt er að þá kom, við framkvæmdina, í þrígang í ljós að einn undirverktakinn þarna var ekki að standa við þessar skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi," segir Magnús. Þarna er um að ræða fyrirtækið G&M sem hefur nú verið staðið að því að brjóta einnig á erlendum starfsmönnum sínum við framkvæmdir í Reykjavík.

Sviku starfsmenn um 18 milljónir

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttaféÍags segir að í ljós hafi komið að G&M skuldi starfsmönnum við Þeistareykjavirkjun um 18 milljónir króna. Af því hafi LNS Saga nú greitt tæpar 15 milljónir, beint inn á reikninga þessarra starfsmanna. Ágreiningur sé hinsvegar um það sem útaf standi.