Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samningur Eflingar og Reykjavíkur nánast í höfn

10.03.2020 - 01:54
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Kjarasamningar milli Eflingar og Reykjavíkurborgar eru nánast í höfn og aðeins lokafrágangur eftir áður en þeir verða undirritaðir, samkvæmt heimildum fréttastofu. Verkfalli Eflingarfólks hjá borginni, sem hefur nú staðið í þrjár vikur, er því að ljúka, gangi þetta eftir, og á annað þúsund félaga Eflingar sem verið hafa í verkfalli frá 17. febrúar snúa því aftur til starfa í fyrramálið.

Samninganefndir deiluaðila hafa setið sleitulaust á fundum síðan um hádegi, en fundað var í deilunni í gær fram á nótt. Um 1.850 Eflingarfélagar sem starfa hjá Reykjavíkurborg voru í verkfalli þegar mest var, en þeim fækkaði nokkuð þegar undanþágur voru veittar fyrir sorphirðu og þrif vegna COVID-19.

Áfram verkfall í Kópavogi, Mosfellsbæ og víðar

Í gær hófst svo verkfall um 300 Eflingarfélaga sem starfa hjá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Hveragerði og Ölfusi. Það verkfall stendur enn og ekki hefur verið boðað til fundar í þeirri deilu enn sem komið er. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður þess þó vart lengi að bíða. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV