Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samningaviðræðum EFTA-ríkja og Breta lokið

20.12.2018 - 13:22
Erlent · Innlent · Bretland · Brexit · EES · EFTA · Evrópusambandið
epa06896175 Britain's Prime Minister Theresa May departs her London residence, 10 Downing Street for Prime Ministers Questions (PMQs) at Parliament in London, Britain, 18 June 2018. Reports state that Theresa May will face questions over Brexit
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Mynd: EPA-EFE - EPA
EFTA-ríkin innan EES og Bretland hafa náð samningi um atriði sem tengjast útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Hann tekur þó ekki gildi fyrr að loknu bráðabirgðatímabili og ef samningur um útgöngu Breta úr ESB verður samþykkur á Breska þinginu. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti segir að með samningi EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands sé leyst úr þeim útgöngumálum sem við eigi með sambærilegum hætti og á milli Bretlands og ESB.

EFTA-ríkin innan EES eru Ísland, Noregur og Lichtenstein. Þau, ásamt aðildarríkjum ESB, mynda Evrópska efnahagssvæðið. Drög samningsins hafa verið birt. Í samningnum er kveðið á um að Íslendingar sem búa í Bretlandi eða flytja þangað fyrir lok hins svokallaða bráðabirgðatímabils geti verið þar áfram og að réttindi þeirra verði í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að þetta sé þýðingarmikill áfangi. „Þetta þýðir að við stöndum jafnfætis aðildarríkjum ESB þegar kemur að því að leysa úr málum sem tengjast útgöngu Bretlands úr sambandinu. Á meðan framhald málsins er enn sveipað nokkurri óvissu halda íslensk stjórnvöld áfram að búa sig undir mismunandi sviðsmyndir,“ er haft eftir utanríkisráðherra í tilkynningu utanráðuneytisins.

Leiðtogaráð ESB hefur samþykkt útgöngusamning Breta en breska þingið á enn eftir að samþykkja hann. Samningur EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland verður aðeins undirritaður ef útgöngusamningur þeirra úr ESB verður samþykktur. Áætlað er að Bretland gangi úr ESB 29. mars næstkomandi. Þá tekur við bráðabirgðatímabil sem stendur til loka ársins 2020. Áætlað er að á því tímabili gildi allir alþjóðasamningar, þar sem talið EES-samningurinn, áfram um Bretland. 

Pólitískt samkomulag ríkir á milli Íslands og Bretlands um að tryggja gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án samnings, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytis. Þar kemur einnig fram að unnið sé að því að tryggja hagsmuni á lykilsviðum ef til útgöngu án samnings kæmi. 

Stjórnvöld Íslands, Noregs og Lichtenstein hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu í tilefni þess að viðræðum er lokið og drög að samningi liggja fyrir. Yfirlýsingin er svohljóðandi: „Það er ánægjulegt að hafa náð þessu samkomulagi. Samningurinn mun vernda réttindi borgaranna þegar Bretland gengur úr ESB og eyða óvissu hjá fyrirtækjum um ýmis atriði. Markmið okkar er að gera nýja samninga sem taka gildi eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur. Þeir tryggja langvarandi tengsl ríkjanna, þar á meðal á sviði viðskipta.“ 

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir