Samninganefnd ríkisins forðaðist píkuna

21.03.2018 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um sextíu manna hópur safnaðist fyrir utan húsnæði Ríkissáttasemjara í Borgartúni í Reykjavík í dag til að sýna samstöðu með kröfum ljóðsmæðra. Ljósmæðurnar voru með stórt bleikt tjald með rifu í miðjunni. María Rebekka Þórisdóttir, í stjórn Ljósmæðrafélagsins, segir að þetta hafi átt að tákna píku. Tilgangurinn hafi verið sá að fá samninganefnd ríkisins til að fara í gegnum píkuna og endurfæðast með betri samninga. Samninganefndin hafi hins vegar neitað því og gengið fram hjá píkunni.

Píkunni var stillt upp fyrir framan innganginn að húsinu. Þrátt fyrir að samninganefnd ríkisins hafi forðast þennan fæðingarveg, þá var þetta fyrsti samningafundurinn í deilunni sem skilaði árangri, segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins. 

Fundurinn í dag var fjórði samningafundurinn. Hingað til hafa fundirnir verið stuttir. Þannig var fundurinn í síðustu viku 10-12 mínútna langur. Í dag var setið að samningaborði í tvær og hálfa klukkustund. „Við getum sagt að fyrsta skrefið hafi verið stigið í dag. Ríkið kom með ákveðið tilboð sem við erum að kíkja á,“ segir Áslaug. „Ég er ekki farin að hræra í vöfflunar en er vonbetri en fyrir fundinn,“ bætir Áslaug við. 

Næsti fundur hefur verið boðaður á morgun klukkan eitt .
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV