Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sammála um vægi íbúa en tókust samt á

03.04.2019 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Tekist var á um íbúakosningu um framtíð stóriðju í Helguvík á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær. Lögmaður bæjarfélagsins komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að söfnun undirskrifta hefði ekki verið lögum samkvæmt. Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, hvatti aðstandendur undirskriftasöfnuninnar til að kæra þá niðurstöðu til ráðuneytis. Meirihlutinn segir ekki útilokað að íbúakosning fari fram þegar Stakksberg óskar eftir breytingu á deiliskipulagi í vor.

Telur meirihlutann hunsa vilja íbúa

Margrét sagði á fundinum í gær að málið varði lýðræðislegan rétt íbúa til að segja skoðun sína í stóru máli. Fram kom í máli hennar að aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar hafi þrjá mánuði til að vísa niðurstöðu bæjarlögmanns til ráðuneytis og hvatti hún þá til þess. Þá sagði hún dæmalaust að bæjarstjórnin „ætli að hunsa vilja íbúa í þessu stóra máli“. Það væri vitað að meirihluti íbúa væri á móti stóriðju í Helguvík, sagði Margrét.

Segja ekki hægt að kjósa á grundvelli söfnunarinnar

Fulltrúar meirihlutans mótmæltu orðum bæjarfulltrúa Miðflokksins og ítrekuðu þann vilja sinn að íbúar fái að koma að ákvörðun um framtíðarskipulag Helguvíkur. Þeir hafa lýst því yfir að ekki sé hægt að efna til íbúakosningar á grundvelli þeirrar undirskriftasöfnunar sem efnt var til í lok árs þar sem hún hafi ekki verið gerð lögum samkvæmt.

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar, sem myndar meirihluta í Reykjanesbæ ásamt Samfylkingu og Framsóknarflokki, ítrekaði að fulltrúar meirihlutans hafi oft lýst skoðun sinni á stóriðju í Helguvík og hafi hvatt eigendur verksmiðjanna til að hætta við stóriðjuáform sín. Bæjaryfirvöld gætu þó ekki farið gegn lögum um íbúakosningar, sem þau myndu gera ef efnt yrði til hennar á grundvelli undirskriftasöfnunarinnar. Það myndi þýða að verið væri að brjóta lög og þá gæti sveitarfélagið verið krafið um skaðabætur. Meirihlutinn hafi lagt fram bókanir gegn starfsemi kísilverksmiðjunni í Helguvík og því ætti ekki skoðun meirihlutans ekki að fara á milli mála. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

„Gætu byggt eitt stykki kísilver á morgun“

Framtíð stóriðjunnar í Helguvík er ekki í höndum bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ nema að takmörkuðu leyti, að mati Guðbrands. „Menn gætu byggt eitt stykki kísilver á morgun á vegum Thorsil. Þeir hafa öll tilskilin leyfi. Ef Umhverfisstofnun myndi leyfa rekstur á kísilverksmiðjunni [Stakksberg, áður United Silicon, innsk. blaðamanns] gætum við ekkert gert. Við gætum hugsanlega gert eitthvað ef Stakksberg myndi óska eftir deiliskipulagsbreytingum,“ sagði hann. Líkt og greint hefur verið frá í fréttum skilar Stakksberg líklega inn tillögu að breytingum á deiliskipulagi í maí eða júní og hafa bæjaryfirvöld lýst yfir vilja til að skoða þann möguleika að íbúar fái að kjósa um málið, það er hvort samþykkja eigi breytingu á deiliskipulagi þannig að verksmiðjan geti verið starfrækt þar áfram eða ekki

Mynd með færslu
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar í Reykjanesbæ. Mynd: RÚV

Andstæðingar vilja bindandi íbúakosningu

Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur kísilverksmiðju United Silicon haustið 2017 eftir ítrekuð mengunaróhöpp og fjölda tilkynninga frá íbúum um líkamleg óþægindi sem talin voru stafa af mengun. Verksmiðjan er nú í eigu Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, sem ætlar að koma henni í samt lag og selja. Fyrirtækið Thorsil áformar að byggja aðra kísilverksmiðju við hliðina á þeirri fyrri. Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík söfnuðu undirskriftum og afhentu bæjaryfirvöldum í lok febrúar. Þau vilja að haldin verði bindandi íbúakosning um framtíð stóriðju í Helguvík.

Niðurstaða bæjarlögmanns var sú að lögum og reglum um slíka söfnun hafi ekki verið fylgt. Guðbrandur sagði á bæjarstjórnarfundinum í gær að til að mynda þurfi að tilkynna sveitarstjórn fyrir fram um fyrirhugaða söfnun og tilkynningin þarf að vera undirrituð af að minnsta kosti þremur einstaklingum. Í tilkynningunni eigi að koma fram tilefni hennar og ábyrgðaraðili. Þetta hafi ekki verið uppfyllt og það sé miður.