Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Samkynhneigðum flóttamanni neitað um hæli

07.05.2013 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Nígerískur flóttamaður segir örvæntinguna hafa hellst yfir sig þegar honum var neitað um hæli hér á landi. Hann hafi trúað því að hér yrði hann hólpinn en hann flúði heimaland sitt vegna þess að hann er samkynhneigður.

Martin óskar engum að vera í sporum hælisleitanda. Öll mannleg reisn hverfi.  Hann flúði frá heimalandi sinu Nígeríu eftir að hafa sætt ofsóknum fyrir að vera samkynhneigður. Hann var barinn til óbóta opinberlega og fjölskylda hans hafnaði honum. Í sumum héruðum eiga samkynhneigðir yfir höfði sér 14 ára fangelsisvist og hefur samkynhneigt fólk verið grýtt til dauða.

Líkt og þúsundir annarra Afríkubúa tók Martin það til bragðs að flýja á báti til Ítalíu í von um betra líf. Þar bættist hann í fjölmennan hóp hælisleitenda í Mílanó, þar sem meirihlutinn er heimilislaus og býr við vægast sagt ömurlegar aðstæður. Ríkisstjórn Ítalíu ræður engan veginn við straum flóttamanna frá Afríku og eru aðstæður þeirra þar einna verstar í  Evrópu.

Beiðni hans um hæli þar var hafnað. Hann bjó ýmist á götunni, hjá vinum eða í  yfirfullum neyðarskýlum fyrir flóttamenn í níu ár, allt þar til  þýskur vinur hans hvatti hann til að flýja til Íslands. Martin varð sér úti um fölsuð skilríki og flúði hingað júlí í fyrra. 

Hann var fangelsaður við komuna í Leifsstöð og  síðar færður á gistiheimilið FIT í Reykjanesbæ á meðan hælisumsókn hans var til afgreiðslu. Hér hafi hann fengið gistingu, peninga fyrir mat og íslenskukennslu. Ekki væri hægt að bera saman aðstæður hælisleitenda hér á landi og á Ítalíu. 

Fjórum mánuðum síðar ákveður Útlendingastofnun að neita honum um hæli og senda hann aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar hafi hann fyrst sótt um hæli og því bæru ítölsk stjórnvöld ábyrgð á honum. Martin mótmælti þessari ákvörðun en innanríkisráðuneytið staðfesti hana í mars.

Eftir það bar kvíðinn og svefnleysið hann ofurliði og hann var lagður inn á geðdeild í tvo sólarhringa. Martin segist ekki hafa mætt því umburðarlyndi sem hann hafi átt von á. Ísland hafi verið fyrirheitna landið, ekki viðkomustaður á leið hans til Kanada eða Bandaríkjanna eins og í tilfelli svo margra hælisleitenda sem hingað sækja.

Nú bíður hann þess að verða sóttur og sendur úr landi.