Samkomulagi náð í Suður-Súdan

07.07.2018 - 01:40
epa05418546 (FILE) A file photo dated 25 April 2016 showing a group of the 195 opposition soldiers arriving with General Simon Gatwech Dual, the chief of staff of the South Sudan rebel troops, in Juba, South Sudan. Reports on 10 July 2016 said hundreds
 Mynd: EPA - EPA FILE
Stjórnvöld og uppreisnarmenn í Suður-Súdan undirrituðu samkomulag í gær, örfáum dögum eftir að vopnahlé þeirra á milli var rofið. Nágrannaríkið Súdan hélt utan um samningafund fylkinganna. Utanríkisráðherra Súdans vonast til þess að samkomulagið leiði til betri tíma hjá nágrannaríkinu í suðri. Kominn sé tími til að leggja niður vopn og koma á stöðugleika.

Deutsche Welle segir samkomulagið fela í sér að báðar fylkingar flytji hersveitir sínar úr afskekktum héruðum. Skærur hafa staðið á milli stjórnar forsetans Salva Kiir og uppreisnarmanna, sem leiddir eru af fyrrverandi varaforseta Kiirs, Riek Machar. Friðarviðræður á milli fylkinganna hafa staðið yfir síðan í síðustu viku, eftir að vopnahléssáttmáli var rofinn nokkrum klukkustundum eftir að hann var samþykktur. Fylkingarnar kenna hvorri annarri um.

Al-Dirdiri Mohamed Ahmed, utanríkisráðherra Súdans, segir fylkingarnar einnig byrjaðar að ræða hvernig þær geti deilt völdum í landinu. Von er á því að þeir Kiir og Machar setjist sjálfir niður í Kampala, höfuðborg Úganda, til að gera friðarsamning. Omar al-Bashir og Yoweri Museveni, forsetar Súdans og Úganda, verða einnig viðstaddir fundinn.

Um 50 þúsund manns hafa fallið í borgarastríðinu í Suður-Súdan og fjórar milljónir hafa orðið að flýja heimili sín. Stanslaus átök í landinu leiddu til svo mikils fæðuskorts að víða var lýst yfir hungursneyð í fyrra. Breska góðgerðarstofnunin Oxfam kallaði eftir tafarlausum aðgerðum í maí á þessu ári til að koma í veg fyrir að milljónir manna svelti í landinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi