Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Samkomulag um þinglok ekki í höfn

07.10.2016 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lágmarksbætur verða hækkaðar í samræmi við lágmarkslaun samkvæmt breytingartillögum sem ríkisstjórnin ætlar að gera við almannatryggingafrumvarp. Samkomulag um þinglok er ekki í höfn. Lánasjóðsfrumvarp, rammaáætlun og frumvarp um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verða ekki afgreidd á núverandi þingi.

Fundur hófst á Alþingi fyrir hádegi án þess að fyrir liggi hvert framhald þingstarfanna verði, þingmenn hafa rætt samgönguáætlun alla vikuna á meðan óvissa er enn um afgreiðslu mála. Fundi var frestað nú á tólfta tímanum en ríkisstjórnin hyggst funda á eftir. Þingflokksformenn og forseti Alþingi funduðu áðan. Allt þetta miðar að því að semja um afgreiðslu forgangsmála þeirra mála sem ríkisstjórnin setur í forgang en niðurstaða liggur enn ekki fyrir og hefur þessi vika í þingstörfum í raun farið fyrir lítið.

Eitt af stóru málunum er almannatryggingafrumvarpið en Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknar, sagði á Alþingi nú fyrir hádegi að það væri mikilvægt að samningar um þinglok væru að takast og hún upplýsti um þær breytingar sem standi til að gera á frumvarpinu.

„Hins vegar verðum við að horfa á verkefnin sem eftir eru og mikilvægi þess að þau verði kláruð þar má meðal annars nefna frumvarp um almannatryggingar með breytingartillögum sem fela það í sér að lágmarksbætur verða hækkaðar í samræmi við lágmarkslaun og auk þess verð ég að minnast á málið um breytingar á útreikningi vísitölu,“ sagði Elsa á Alþingi.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði hins vegar að Alþingi væri að skilja eftir fátækasta fólkið í landinu. „En öryrkjar liggja í frumvarpinu óbætti hjá garði. Ég vil virðulegur forseti nota þetta tækifæri og skora á stjórnarmeirihlutann að gera breytingar á þessu Alþingi getur ekki skilið fátækasta fólkið í landinu eftir í lok kjörtímabils þar sem að nær allir hópar í landinu hafa notið kjarabóta,“ sagði Helgi.

Ekki er vitað  nákvæmlega hvaða breytingar ríkisstjórnin boðar á frumvarpinu og hvort þær muni ná til öryrkja líka en ljóst er að kostnaður hleypur á milljörðum. Losun fjármagnshafta verður afgreitt á þessu þingi og ríkisstjórnin leggur áherslu á stuðning við kaup á fyrstu íbúð, tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, stofnun millidómsstigs og frumvarp um raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.  

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV