Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samkomulag Katara við BNA „ófullnægjandi“

11.07.2017 - 23:36
Erlent · Katar
epa06011226 (FILE) - A general view of the skyline of Doha, Qatar, 05 February 2010 (reissued 05 June 2017). According to media reports, Egypt, Saudi Arabia, Bahrain and the United Arab Emirates cut off diplomatic ties with Qatar on 05 June 2017, accusing
Frá Doha í Katar. Mynd: EPA
Samkomulag milli Katar og Bandaríkjanna um að sporna gegn fjárstuðningi við hryðjuverkasamtök er „ófullnægjandi“. Þetta segja þau Arabaríki, sem beitt hafa Katar viðskiptaþvingunum vegna meints stuðnings við hryðjuverkasamtök, í sameiginlegri yfirlýsingu í dag.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í heimsókn í Katar þegar tilkynnt var um samkomulag milli landanna tveggja. Samkomulagið var afrakstur þrýstings frá nágrönnum Katar og bandamanna þeirra um að láta af stuðningi við hryðjuverkasamtök, segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Sádí Arabíu, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, Barein og Egyptalandi. Það var hinsvegar ekki fullnægjandi og sögðust ríkin fjögur ætla að hafa auga með því, hversu alvarlega yfirvöld í Katar taka því að sporna gegn stuðningi við hryðjuverkasamtök.

Löndin fjögur ákváðu að slíta tengslum við Katar í byrjun síðasta mánaðar. Nokkru síðar sendu þau stjórnvöldum í Katar lista með þrettán kröfum sem ríkið þyrfti að uppfylla til þess að tengslum yrði aftur komið á.

Fréttastofa AFP greinir frá þessu.