
Samkomubanni verður komið á og skólastarf takmarkað
Þá hefur verið ákveðið að takmarka skólastarf í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi. Kennsla í háskólum og framhaldsskólum skal felld niður um allt land. Í leik- og grunnskólum verður sett hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er. Ráðstafanir fyrir grunn- og leikskóla verða útfærðar nánar í viðkomandi sveitarfélögum.
„Þetta er í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem slík ráðstöfun er gerð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í upphafi fundar.
„Við erum að loka háskólum og framhaldsskólum tímabundið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Hún segir að menntamálaráðuneytið hafi byrjað að undirbúa þessar aðgerðir 17. febrúar og mikið samráð hafi verið haft við stjórnendur háskóla og framhaldsskóla.
Samkomubannið tekur meðal annars til verslana. Ekki verður heimilt að hafa fleiri en hundrað manns þar inni í einu. Þá tekur bannið til að mynda til ráðstefna, íþróttaviðburða, menningarviðburða, veitingastaða og skemmtana.
Til greina kemur að aflétta samkomubanni fyrr en fjórar vikur eru á enda en líka að framlengja það ef þörf krefur, að sögn Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.