Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samið um tvær nýjar heilsugæslustöðvar

07.09.2016 - 02:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið um rekstur tveggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Útboð á rekstri þriggja nýrra heilsugæslustöðva var auglýst í lok apríl. Þrjú tilboð bárust, tvö voru samþykkt en því þriðja hafnað.

Nýju stöðvarnar munu verða starfræktar við Bíldshöfða í Reykjavík og Urðarhvarfi í Kópavogi. 

Staðsetning stöðvarinnar við Bíldshöfða tekur mið af því að stöðin geti þjónað þeim sem búa eða starfa á austurhluta höfuðborgarsvæðisins. Stöðin mun standa við einn stærsta þéttingarreit byggðar í Reykjavík en á næstu árum mun standa til að byggja þúsundir íbúða í næsta nágrenni stöðvarinnar. Við stöðina á Bíldshöfða munu starfa tíu læknar, tvær ljósmæður og þrír hjúkrunarfræðingar. Heilsugæslustöðinni að Urðarhvarfi er einnig ætlað að þjóna þeim sem búa eða starfa á austurhluta höfuðborgarsvæðisins. Þar munu starfa átta læknar og fimm hjúkrunarfræðingar.

Í útboði Ríkiskaupa var höfuðborgarsvæðinu skipt í þrjú svæði þannig að nýjar heilsugæslustöðvar yrðu starfræktar þar sem þörf fyrir slíka þjónustu væri mest. Markmiðið með útboðinu var að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu og auka fjölbreytni í rekstrarformi heilsugæslustöðva að norrænni fyrirmynd. Í útboðinu voru skilgreindar ákveðnar lágmarkskröfur til þjónustunnar og til rekstraraðila. Krafa var gerð um að félagið sem rekur þjónustuna verði í meirihlutaeigu heilbrigðisstarfsmanna sem starfa á viðkomandi stöð í a.m.k. 80% starfshlutfalli. Að auki var gerð sú krafa að að minnsta kosti helmingur starfandi lækna við stöðina séu sérfræðingar í heimilislækningum og að a.m.k. helmingur hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra hafi reynslu af starfi á heilsugæslustöð. Einnig var gerð sú krafa að bið eftir þjónustu verði að jafnaði skemmri en tveir sólarhringar.

Stefnt er að því að stöðvarnar opni 1. febrúar 2017.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV