Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samið um einkarekið sjúkrahús í Mosfellsbæ

21.07.2016 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: mos.is
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að úthluta félaginu MCPB ehf, sem er að langmestu leyti í eigu hollenska félagsins Burbanks Holdings, lóð undir 30 þúsund fermetra byggingu sem á að hýsa einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel í samstarfi við spænska hjartalækninn Pedro Brugada.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Þar segir að eingöngu verði lögð áhersla á að þjónusta erlenda sjúklinga.  Starfsemin eigi því ekki að hafa nein áhrif á íslenska heilbrigðiskerfið. Ef af verður yrði þetta fyrsta einkarekna sjúkrahúsið á Íslandi.

Hollenska félagið sóttist einnig eftir viðræðum við Garðabæ undir lóð og í bréfi þess til bæjaryfirvalda, sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í lok júni, kemur fram að hugmyndin sé að reisa og starfrækja einkaspítala ásamt 5 stjörnu hóteli. Þar segir einnig að gert sé ráð fyrir að spítalinn verði með um það bil 150 eins manns sjúkraherbergi og að lágmarki 5 skurðstofur. Hótelið verði með um 250 til 300 herbergjum.