Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Samið um bættan aðbúnað verkamanna í Katar

26.10.2017 - 06:39
Erlent · Asía · Katar
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Alþjóðafarandverkamannasambandið, ITUC, kveðst hafa náð samkomulagi við stjórnvöld í Katar um að bæta aðbúnað farandverkamanna þar í landi. Um tvær milljónir erlendra starfsmanna vinna þar við aðstæður sem líkt hefur verið við þrælahald.

Meðal breytinga verður afnám kafala-kerfisins, sem gera verkamenn nánast að eign vinnuveitenda. Samkvæmt kerfinu geta farandverkamenn ekki skipt um vinnu eða farið úr landi án leyfis yfirmanns. Katar hefur legið undir ámæli fyrir skelfilegan aðbúnað farandverkafólks, sérstaklega eftir val Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á ríkinu sem gestgjöfum Heimsmeistaramótsins í fótbolta 2022. Farandverkamenn koma að byggingu leikvanganna sem reistir verða fyrir mótið. Samkvæmt skýrslu Amnesty í fyrra er aðbúnaður þeirra til skammar, laun lág, verkamenn látnir strita í miklum hita og þá hafa hundruð verkamanna látið lífið við störf án þess að það hafi verið skráð.

Von er á ákvörðun alþjóðaverkalýðssambandsins, ILO, í þessari viku um hvort formleg rannsókn á aðbúnaði farandverkamanna við byggingu leikvanga og innviða í Katar verði gerð. Sharan Burrow, framkvæmdastjóri ITUC, segir að með samkomulaginu við stjórnvöld í Katar ætti þess ekki að þurfa. Samkvæmt samkomulaginu verður vinnuveitendum óheimilt að neita verkamönnum um að fara úr landi. Burrow segir einnig að verktökum verði hér eftir bannað að breyta skilmálum samninga við verkamenn eftir að þeir koma til landsins. Þá hefur breska blaðið Guardian eftir ríkisfjölmiðli Katars að Issa Saad al-Jafali al-Nuaimi, atvinnumálaráðherra Katars, hafi tjáð erlendum erindrekum að von væri á lögum um lágmarkslaun. Ekkert var þó sagt um upphæð launanna eða hvenær þeim yrði komið á.

Nicholas McGeehan, sérfræðingur í málefnum farandverkamanna við Persaflóa, segir í viðtali við Guardian að rétt sé að taka þessum fréttum með gát. Aðeins sé um að ræða loforð, og þau hafi áður verið svikin. Bíða verði þar til breytingarnar verða festar í lög.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV