Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Samhengið við eigið samfélag

Mynd með færslu
 Mynd: Kvensögusafn Íslands
Mynd með færslu
 Mynd: bb.is
Skipuleggjendur jafnréttisráðstefnunnar Í kjölfar Bríetar á Ísafirði telja samhengið við eigið samfélag mjög mikilvægt. Þær telja að fáir þeirra sem sóttu ráðstefnuna, sem var haldin í Ísafjarðarbæ, hefðu sótt sambærilega ráðstefnu annarsstaðar.

„Fólk fagnar öllum skrefum sem eru tekin í samfélaginu og vill taka þátt í þeim, í þessu tilfelli voru það jafnréttismál,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, ein skipuleggjanda ráðstefnunnar Í kjölfar Bríetar, sem fór fram á Ísafirði um helgina. Ráðstefnan var haldin í tengslum við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og var helguð jafnréttismálum. Þórdís segir að ráðstefnan hafi skapað umræðu í bænum og þannig rati málefni inn í almenna umræðu fyrirtækja og á kaffistofum bæjarins. „Það er mikilvægt að fá reynslu annar staðar frá en líka að fá að miðla af okkar reynslu,“ bætir hún við.

„Ekki nóg að segja að góðir hlutir gerast hægt“

„Það er ekki nóg að segja að góðir hlutir gerast hægt heldur verðum við að taka skrefin,“ segir Þórdís, „það verður haldinn fundur í næstu viku til að skoða hvað við gerum næst. Á meðan krafturinn lifir í fólkinu.“ Sérstakt þema á ráðstefnunni var hugarfar: „Þótt við teljum okkur vera með allt á hreinu þá þurfum við alltaf að vera að minna okkur á,“ segir Þórdís. „Jafnvel Ásdís Olsen [sem var fyrirlesari á ráðstefnunni] sem er sérfræðingur í þessum fræðum og telur sig vera mjög meðvitaða þarf líka að staldra við og leiðrétta vissar hugsanavillur,“ bætir Ásgerður Þorleifsdóttir en hún er einnig ein af skipuleggjendum ráðstefnunnar.

„Það var eitthvað í loftinu“

Ráðstefnan var hluti af 100 ára kosningarétti kvenna „Þetta fékk okkur til að halda okkur við efnið,“ segir Þórdís. Skipuleggjendur sáu tækifærið í því að halda ráðstefnu: „Ef fólk les greinar þá velur það sjálft hvað það les.“ Á ráðstefnunni var þó lögð áhersla á brjóta upp dagskrána með vinnustofum og umræðuhópum. „Ýtti undir gleðina og þátttökuna,“ segir Þórdís: „Saga Sigurðardóttir var með „Macho-pósur“ og allir tóku þátt.“ „Meira að segja Gunnar Bragi utanríkisráðherra,“ bætir Ásgerður við, ráðherrann var meðal fyrirlesara.

Karllæga sjávarþorpið mýta

„Við höfum í sumar sáð fræjum í tilefni af afmælinu, sem hafa kveikt nokkur ljós og vonandi kveikti ráðstefnan enn fleiri ljós,“ segir Þórdís, „það var eitthvað í loftinu.“ Þær segja ekki mikið vera til í því að sjávarþorp séu karllæg, þótt fiskvinnslu og útgerð sé stýrt af körlum. „Margar konur á Ísafirði reka eigin fyrirtæki. Ég held að þetta sé bara mýta,“ segir Ásgerður.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður