Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samfylkingin tapar mestu fylgi

16.10.2018 - 07:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn í borgarstjórn, samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. Samkvæmt könnuninni segjast nærri 30 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn en það er svipað og kjörfylgi flokksins í vor.

Samfylkingin tapar mestu fylgi frá kjörfylgi, og mælist með 21 prósents fylgi, fimm prósentustigum minna en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í vor. Flokkurinn fengi miðað við þessa útkomu tveimur færri borgarfulltrúa en flokkurinn fékk í kosningunum í vor. 

Aðrir flokkar í meirihlutanum bæta við sig, samkvæmt könnuninni. Píratar bæta við sig nærri fimm prósentustigum í könnuninni og fengju tæp þrettán prósent samanborið við tæp átta í vor. Viðreisn mælist með rúm níu prósent samanborið við rúm átta í vor. Þá mælast Vinstri græn með ríflega átta prósent en fékk tæp fimm prósent í vor.

Meirihlutinn myndi halda velli með þrettán borgarfulltrúa en væri öðruvísi samsettur. Þannig myndi Samfylkingin tapa tveimur mönnum en Píratar og Vinstri græn bæta við sig einum manni hvor. Viðreisn fengi áfram tvo menn. Samsetning borgarfulltrúa minnihlutans væri óbreytt.

Þriðjungur aðspurðra í könnuninni segjast vera þeirrar skoðunar að borgarstjóri ætti að axla ábyrgð á framúrkeyrslu við endurbætur og viðbyggingar braggans í Nauthólsvík. Rúmur fjórðungur taldi ábyrgðina vera meirihlutans og álíka margir að embættismenn ættu að axla ábyrgð.

Könnunin var gerð yfir helgina og var úrtakið 1.450 íbúar í Reykjavík, átján ára og eldri. Svarhlutfall var 54 prósent.