Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Samfylkingin ekki rætt við BF og Pírata

20.09.2015 - 12:28
Mynd með færslu
Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir segja Samfylkinguna ekki hafa rætt við sína flokka  Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Forsvarsmenn Pírata og Bjartrar framtíðar segja að hugmyndir formanns Samfylkingarinnar um að flokkar sameinuðust um markmið fyrir næstu kosningar hefðu verið í fjölmiðlum en ekki verið rædd flokka á milli. Enn sé langt í kosningar og brýn mál fyrirliggjandi sem þurfi að leysa fyrr.

Rædd í fjölmiðlum en ekki milli manna
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði á flokkisstjórnarfundi í gær að mjög skynsamlegt væri að sameinast öðrum flokkum um meginverkefni og grundvallarbreytingar. Miklu skipti að til væri trúverðugur kostur í næstu kosningum svo fólk vissi að hægt væri að losna við ríkisstjórnina. 

„Þessar hugmyndir hafa svona aðeins flotið í fjölmiðlum en það er nú ekki eins og að það hafi verið mikið samtal manna á milli. En við erum opin fyrir, erum í pólitík til þess að gera gagn og við erum opin fyrir hvaða hugmyndum sem geta orðið til þess.“, segir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar.

Tvö ár í kosningar og brýn mál sem þarf að leysa fyrr
Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að svipaða tillögu og Árni Páll hafi hún lagt fram fyrir síðustu kosningar. Hún hafi falið í sér sameiginleg markmið með tilbúnum stjórnarsáttmála en engan hljómgrunn hlotið. 

„Þau hafa í það minnsta ekkert komið og rætt við okkur um þessi mál. Og ég vil líka taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að Píratar eru opnir fyrir öllum sem hafa áhuga á því að ganga bundnir að því að framfylgja því sem að við teljum að sé nauðsynlegt það er að laga gruninn að samfélaginu okkar. Það er öllum frjálst að koma að tala við okkur. Ég vil aftur á móti bara leggja höfuðáherslu á það að við erum ekki í kosningavetri. Við eigum að einbeita okkur að bara að neyðarástandi sem hér ríkir.“

Óttar bendir á að tvö ár séu í kosningar: „Kjörtímabilið er ekki nema hálfnað og við þurfum að gæta að reyna að vinna að góðum verkum líka fram að kosningum en ekki bara að horfa á þær sem einhvern endapunkt eða startpunkt á vinnu.“

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV