Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Samfylkingin aldrei minni

Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn bætir enn við sig fylgi en Samfylkingin tapar verulega samkvæmt nýrri könnun Gallup, fylgi flokksins er það minnsta sem Gallup hefur mælt í tæp fimmtán ár. Píratar fá fjóra þingmenn kjörna og Framsóknarflokkurinn er enn á uppleið.

Könnunin var gerð dagana annan til 10. apríl og sýnir að enn er nokkur hreyfing á fylginu frá síðustu könnun sem birt var fyrir tíu dögum.

Framsóknarflokkurinn er enn á uppleið, mælist nú með rúm 29 prósent, ríflega prósentustigi meira en síðast. Hann fær tuttugu og tvo þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn dalar lítillega frá síðustu könnun, mælist með tæp tuttugu og tvö prósent og sextán þingmenn.

Samfylkingin fær rúm tólf prósent, tapar næstum þremur prósentustigum frá síðustu könnun og fær níu þingmenn. Þetta er minnsta fylgið sem Samfylkingin hefur mælst með í tæp fimmtán ár. Björt framtíð dalar einnig, fær rúm tíu prósent og sjö þingmenn. Vinstri græn eru einnig á niðurleið, eru nú með 7,3 prósent og fimm þingmenn, en Píratar auka fylgi sitt um næstum tvö og hálft prósentustig, fá tæp sjö prósent og fjóra þingmenn. Aðrir ná ekki inn manni en næst því er Lýðræðisvaktin, með 3,8 prósent. Dögun 2,5 og Flokkur heimilanna 1,5. Fylgi hinna framboðanna er innan við eitt prósent en þessi framboð hafa samtals rúmlega 12 prósenta fylgi.

Miðað við þessa könnun virðist stöðugleiki að nást í fylgi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, en hreyfingin á fylgi þeirra er innan skekkjumarka. Meiri hreyfing er á fylgi hinna framboðanna sem ná mönnum á þing. Ríflega 81 prósent þeirra sem svöruðu tóku afstöðu. 9,5 prósent ætlar ekki að kjósa eða skila auðu, tæp sex prósent tóku ekki afstöðu og þrjú prósent neituðu að svara.