Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samfylkingin á uppleið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstri græn mælast með mest fylgi allra flokka en Samfylkingin er í mestri sókn samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem birt var í morgun. Vinstri græn mælast með rúmlega 27 prósenta fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 23 prósent. Samfylkingin mælist með rúmlega fimmtán prósenta fylgi, sem er tvöfalt fylgi flokksins eins og það mældist í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir hálfum mánuði.

Fjórir flokkar til viðbótar mælast í könnuninni yfir fimm prósenta mörkunum sem veita rétt til uppbótarþingsæta óháð því hvort flokkar fái mann kjördæmakjörinn eða ekki. Píratar mælast annað skiptið í röð með um níu prósenta fylgi. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn mælast með um sex og hálfs prósents fylgi hvor um sig en báðir flokkarnir mældust síðast með um og yfir níu prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn er svo síðasti flokkurinn yfir fimm prósenta mörkunum, með 5,5 prósenta fylgi í annarri könnuninni í röð.

Viðreisn mælist með rúmlega þriggja prósenta fylgi og Björt framtíð fengi tæplega þrjú prósent atkvæða samkvæmt þessu. 

Dögun, Alþýðufylkingin og Íslenska þjóðfylkingin mælast með 0,2 til 0,4 prósenta fylgi. 

Samkvæmt þessu fengju Vinstri græn nítján þingsæti, Sjálfstæðisflokkurinn sextán og Samfylkingin ellefu. Píratar fengju sex þingsæti og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fengju hvor um sig fjögur þingsæti. Framsóknarflokkurinn yrði minnsti flokkurinn á þingi með þrjú þingsæti. Hvorki Viðreisn né Björt framtíð kæmust á þing samkvæmt þessu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV