
Samfélagsmiðlagögn til að fá vegabréfsáritun
Einungis umsækjendur um diplómatísk eða vegabréfsáritanir á vegum erlendra yfirvalda eru undanþegnir reglunum, sem tóku gildi í gær.
Allir sem sækja um áritun vegna náms eða vinnu vestanhafs þurfa að skila inn gögnunum. Meðal þess sem gera þarf grein fyrir eru notendanöfn á samfélagsmiðlum, netföng og símanúmer fimm ár aftur í tímann. Áður þurfti aðeins fólk sem hafði verið búsett á svæðum undir stjórn hryðjuverkahópa að skila inn slíkum gögnum.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir þetta gert til að bæta skimun á umsækjendum, með það að markmiði að vernda bandaríska ríkisborgara án þess að hindra lögmæt ferðalög til landsins.
Embættismaður sem bandaríska fréttasíðan The Hill ræddi við segir að þeir sem segi ósatt um samfélagsmiðlanotkun sína eigi yfir höfði sér harðar refsingar.