Samfarir við 10 ára barn teljast ekki nauðgun

04.05.2018 - 03:27
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Dómstólar í Finnlandi hafa úrskurðað að samfarir 22 ára gamals manns við tíu ára stúlkubarn flokkist ekki sem nauðgun. Dómurinn hefur vakið mikla reiði meðal Finna og hávær krafa er uppi um lagabreytingar. Í undirrétti var maðurinn dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir grófa, kynferðislega misnotkun og var sá dómur staðfestur á millidómstigi, þrátt fyrir að saksóknaraembættið hafi ákært hann fyrir sérlega grófa nauðgun og krafist refsingar í samræmi við það.

Saksóknari áfrýjaði málinu til hæstaréttar, sem hafnaði því að taka málið fyrir. Þar með stendur þessi dómur. Rökstuðningur verjenda var, samkvæmt frétt finnska ríkisútvarpsins, YLE, að ekki væri hægt að sanna að samfarirnar hafi farið fram gegn vilja barnsins, né heldur að barnið hefði verið óttaslegið eða ósjálfbjarga þegar þær fóru fram.

Ofbeldi var heldur ekki beitt, sögðu verjendur, og því var þetta ekki nauðgun. Á það féllust dómarar, enda ofbeldi eða hótun um ofbeldi ein forsenda þess að hægt sé að tala um nauðgun, samkvæmt finnskum lagabókstaf. Terttu Utriainen, fyrrverandi lagaprófessor, segir þetta áfellisdóm fyrir finnskt réttarkerfi og minna meira á réttarfar og hugsanagang átjándu og nítjándu aldar en þeirrar tuttugustu og fyrstu. Utriainen hefur um árabil barist fyrir því að lögum verði breytt á þann veg, að börn undir tilteknum aldri geti aldrei talist viljugur eða samþykkur þátttakandi í samförum, líkt og tilfellið er hér á landi og í Svíþjóð, til dæmis.

Önnur forsenda þess að hægt sé að dæma menn fyrir nauðgun er að þeir hafi nýtt sér meðvitundarleysi, veikindi, fötlun, hræðslu eða bjargarleysi brotaþola til að koma fram vilja sínum. Ungur aldur brotaþola er hins vegar ekki nefndur sérstaklega í þessari romsu og því getur hann, einn og sér, ekki talist forsenda nauðgunar, að mati dómara.

Utrainen furðar sig á þessu. „Börn eru ekki tiltekin sérstaklega í lagagrein sem miðar að því að vernda viðkvæma hópa og dómstóllinn túlkar lögin mjög bókstaflega,“ segir hún. Hún telur þessa bókstafstryggð dómaranna hvort tveggja órökrétta og þversagnakennda, segir þetta algjörlega ólíðandi ástand og ítrekar kröfu sína um lagabreytingar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi