Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sameiningarviðræður gætu hafist fljótlega

Mynd með færslu
Blönduós. Mynd úr safni.  Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Þrjár sveitarstjórnir af fjórum í Austur-Húnavatnssýslu hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Beðið er eftir Skagabyggð, sem þarf að ákveða hvort á að sameinast Austursýslunni eða Skagafirði.

Fjögur sveitarfélög tilheyra Austur-Húnavatnssýslu: Blönduós, Húnavatnshreppur, Skagaströnd og Skagabyggð. Á héraðsfundi í ágúst var ákveðið að sveitarstjórnir tækju afstöðu til þess hvort hefja ætti sameiningarviðræður. Öll sveitarfélögin hafa nú samþykkt það og skipað menn í nefnd, utan Skagabyggðar sem hefur ekki tekið afstöðu. 

Lítill áhugi fyrir allsherjarsameiningu

Upphaflega stóð jafnvel til að sameina fleiri sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skagafjörður og Skagabyggð hófu formlegar viðræður í sumar og buðu öðrum að taka þátt, en lítill áhugi var fyrir allsherjarsameiningu. Þá var ákveðið að láta reyna á Austur-Húnavatnssýslu. Skagabyggð þarf því að ákveða hvort halda eigi áfram viðræðum við Skagafjörð, eða snúa sér að Austursýslunni. 

Öflugra sveitarfélag með sameiningu

Þorleifur Ingvarsson, oddviti Húnavatnshrepps, telur að með sameiningu verði til öflugra sveitarfélag. „Bæði í stjórnsýslu, atvinnumálum og öllu því sem snýr að verkefnum sveitarfélaganna. Þetta er 1.850 manna sveitarfélag og það hefði náttúrulega töluvert meiri burði en þessi fjögur hvert um sig,“ segir hann.  

Hvernig er hljóðið í íbúum á svæðinu varðandi þessi mál?

Ég held að það sé bara jákvætt, án þess að það hafi nú verið kannað formlega. En miðað við það sem maður heyrir þá held ég að menn séu jákvæðir fyrir því að þetta sé kannað,“ segir Þorleifur.  

Bíða eftir Skagabyggð

Þorleifur segir að fljótlega gætu hjólin farið að snúast. „Þessar viðræður verða náttúrulega teknar upp um leið og öll sveitarfélögin eru búin að taka afstöðu og ég tel nú svo sem víst að það verði eitthvað fundað, alveg sama hver niðurstaðan verður hjá Skagabyggð,“ segir hann.