Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sameining Austur-Húnavatnssýslu til skoðunar

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu taka á næstunni afstöðu til þess hvort skuli hefja formlegar sameiningarviðræður. Þetta var ákveðið á fundi sveitarfélaganna í morgun. Forsvarsmenn Skagabyggðar er nú þegar í viðræðum við Skagafjörð um sameiningu og þurfa að ákveða hvoru megin borðsins þeir ætla að vera. 

Enginn áhugi fyrir allsherjarsameiningu

Að undanförnu hefur verið rætt um mögulega sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar eru sjö sveitarfélög, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduós, Skagabyggð, Skagaströnd, Skagafjörður og Akrahreppur. Á dögunum hófu Skagafjörður og Skagabyggð formlegar sameiningarviðræður og buðu öðrum sveitarfélögum að taka þátt. Fá svör hafa borist og ljóst er að enginn áhugi er fyrir allsherjarsameiningu, en oddviti Húnaþings vestra segir það ekki koma til greina. 

Rétt að láta reyna á Austur-Húnavatnssýslu

Í morgun funduðu sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu, það eru Blönduós, Skagaströnd, Húnavatnshreppur og Skagabyggð, um möguleika á sameiningu þeirra. Sérfræðingur í sameiningum sveitarfélaga mætti á fundinn og kynnti mögulegar útfærslur og forsvarsmenn sveitarfélaganna tjáðu sín sjónarmið. „Niðurstaða fundarins var sú að beina því til sveitarstjórna hvort þær vilji hefja formlegar sameiningarviðræður sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu," segir Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagastrandar. 

„Ég tel að það sé tímabært að huga að því hvort ekki sé tímabært að sameina sveitarfélög á svæðinu. Það er ekki raunhæft að sameina öll sveitarfélögin á Norðurlandi Vestra, en ég tel rétt að við látum reyna á Austur-Húnavatnssýslu, hvort hægt sé að sameina sveitarfélögin þar," segir Magnús.

Fundarmenn hafi verið jákvæðir gagnvart hugmyndinni og líti flestir á slíka sameiningu sem fyrsta valkost. „Þetta var bara jákvæður og góður fundur fannst mér, það var enginn sem mælti gegn því að skoða þetta,“ segir hann. Nú fer málið til sveitarstjórna sem ákveða hvort skuli skipa samninganefnd. „Mér þykir líklegra en hitt að menn telji rétt að skoða þetta,“ segir Magnús. 

Óeðlilegt að vera í viðræðum á tveimur stöðum

Vignir Sveinsson, oddviti Skagabyggðar og formaður samninganefndar í viðræðum Skagafjarðar og Skagabyggðar, var á fundinum í morgun. Hann segir að nú hafi málið tekið nýja stefnu og því þurfi að taka ákvörðun um framhaldið. „Við þurfum að taka það fyrir hvort menn vilji bakka út úr hinum viðræðunum og fara inn í þessar, það hlýtur að þurfa að taka það fyrir,“ segir Vignir. Óeðlilegt sé að vera í samningaviðræðum á tveimur vígstöðvum.

Ekkert rætt um sameiningu við Skagafjörð

Hann segir að á fundinum hafi ekkert verið rætt um sameiningu við Skagafjörð, en þó sé ekkert útilokað í þeim efnum. „Það tjáði sig enginn um það að því leytinu, en menn höfðu áhuga á að setja Austur-Húnavatnssýslu saman,“ segir Vignir. 

Aðspurður segist hann telja að íbúar svæðisins séu hallir undir einhvers konar sameiningu sveitarfélaga. „Ég held nú að fólk sé meira þess sinnis með sameiningu, það er mín tilfinning. En nákvæmlega hvernig hún á að líta út, þar færðu mörg sjónarmið,“ segir Vignir.