Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sameining á Austurlandi gæti þrýst á vegbætur

19.10.2018 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjögur sveitarfélög á Austurlandi hafa samþykkt að hefja formlegar sameiningarviðræður og er stefnt að kosningu um sameiningu fyrir lok næsta árs. Forseti bæjarstjórinar á Seyðisfirði leggur áherslu á sjálfræði með hverfisráðum ef af sameiningu verður og telur sameiningu færa aukinn þunga í baráttu fyrir jarðgöngum undir Fjarðarheiði og heilsársvegi yfir Öxi.

Síðasta vetur var sameiningarhugur kannaður í sex sveitarfélögum á Austurlandi, öllum nema í Fjarðabyggð og Breiðdalshreppi sem nú hafa sameinast. Í Fljótsdalshreppi og á Vopnafirði var áhuginn lítill en á Seyðisfirði, Djúpavogi, Borgarfirði eystra og Fljótsdalshéraði var niðurstaðan jákvæð. Þar bjuggu samtals tæplega 4800 manns um síðustu áramót.

Eftir óformlegar viðræður hafa sveitarfélögin fjögur samþykkt að stofna samstarfsnefnd um mögulega sameiningu. „Það ferli sem er núna fram undan gengur út að það að greina samlegðina, greina möguleikana sem eru í stöðinni og jafnframt greina þær mögulega neikvæðu afleiðingar sem geta komið fram. Reyna að lágmarka þær og reyna að hámarka kostina,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, segir mögulegt að ná ýmsum samlegðaráhrifum til dæmis í skólamálum. Á Borgarfirði eru fá börn eftir í skólanum og kostur að geta samnýtt kennara milli skóla og börnin gætu fengið að sækja stærri skóla á Fljótsdalshéraði meðal annars til að komast í kynni við fleiri krakka. Aðspurður um af hverju Borgfirðingar vilji stíga þetta skref inn í sameiningarviðræður núna, segir hann: „Bæði er það boðun frá stjórnvöldum um lágmarks íbúafjölda í sveitarfélögum og sveitarfélög eru orðin of lítil til að sinna mörgum af þessum þjónustuhlutverkum sem þau þurfa að sinna.“

Seyðfirðingar vilja skoða sameininguna með gagnrýnum en opnum huga og leggja áherslu á ákveðið sjálfræði. „Og við tökum undir þessa hugmynd sem hefur komið fram með hverfisráð. Okkur finnst hún algjörlega nauðsynleg vegna fjarlægðar sveitarfélaganna sem um ræðir. Þannig að ég tel að það yrði til bóta að hafa þetta ekki of miðstýrt, ef af þessu verður,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði. Sameining myndi leggja aukin þunga á baráttu Seyðfirðinga fyrir göngum undir Fjarðarheiði.

Á Djúpavogi bindur fólk einnig vonir við bættar samgöngur til Héraðs. „Stærri sveitarfélög ættu að geta veitt betri þjónustu og stjórnsýslan ætti að verða öflugri og svo drögum við engan dul á það að með þessu þá getum við náð árangri í til dæmis byggða- og samgöngumálum sem við höfum barist fyrir árum saman. Axarvegur myndi tengja okkur við Fljótsdalshérað og myndi færa okkur 70 kílómetrum rúmum nær miðju nýs sameinaðs sveitarfélags,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi.

„Þetta formlega ferli felur það í sér að sveitarfélögin gangast undir að enda þetta ferli með íbúakosningu. Við erum í raun að senda verkefnið til íbúanna en ætlum að undirbúa það vel þannig að allir geti tekið upplýsta ákvörðun og það er markmiðið að þessi kosning geti farið fram fyrir árslok 2019,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.