Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sameinast um aðgerðir í umhverfismálum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Oddvitar Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu kynntu í dag áherslur í umhverfismálum. Þau vilja aukið val í samgöngum og boða átak í uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla.

Oddvitarnir stefna að því að auka samstarf sveitarfélaganna og sameinast um aðgerðir í loftslagsmálum. Sveitarfélögin eigi að sniðganga plast eins og kostur er og styðja betur við endurvinnslu þess. Þau eigi að draga úr sóun með því að gera öllum mögulegt að flokka sorp til endurvinnslu. „Vinstri græn hafa auðvitað alltaf verið í fararbroddi í umhverfismálum og við vitum það að umhverfismál eru stórt velferðarmál fyrir núlifandi og komandi kynslóðir og þetta snýst um lífsgæði og þetta snýst um heilsufar og í rauninni möguleika komandi kynslóða til að eiga gott líf hér á landi og sveitarfélögin geta gert heilmikið,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Kópavogi. 

Vinstri græn vilja borgarlínu og hraða uppbyggingu hjólastíga til að draga úr bílaumferð, og gera fólki kleift að velja úr fleiri raunhæfum kostum í samgöngumálum. Meðal annars með því að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla, bæði við íbúðarhús og opinberar byggingar. „Við megum ekki gleyma því að við berum mikla ábyrgð hér á höfuðborgarsvæðinu, á suðvesturhorninu, því hér býr meirihluti þjóðarinnar. Við megum ekki halda áfram að vinna svona hver í sínu horni heldur þvert á sveitarfélagsmörk, það er okkar hugmynd að það verði mynduð heildræn stefna með því að taka höndum saman í þessum málaflokkum,“ segir Bjarki Bjarnason, oddviti Vinstri grænna í Mosfellsbæ. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV