Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sameiginlegt framboð í uppnámi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrirhugað sameiginlegt framboð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði er í uppnámi eftir deilur innan Bjartrar framtíðar. Þetta segir Björt Ólafsdóttir, formaður flokksins. Hún segir að innan Bjartrar framtíðar sé fólk þreytt eftir átök og rugling, og að fulltrúar flokksins sem áttu að skipa annað og þriðja sæti á sameiginlegum framboðslista hafi dregið sig í hlé.

Björt framtíð og Viðreisn hafa stefnt að sameiginlegu framboði í Hafnarfirði. Samkvæmt færslu Bjartar, formanns Bjartrar framtíðar, á Facebook var samkomulag um að Viðreisn fengi efsta sæti á listanum en Björt framtíð næstu tvö sæti. Áform um þetta séu þó í uppnámi eftir átök innan Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði.

Bæjarfulltrúar flokksins hafa sagt sig úr flokknum eftir átök innan þess hóps sem vinnur að bæjarmálum. Í gær var fulltrúum flokksins sem setið hafa í ráðum og nefndum skipt út á fundi þar sem kom til harðra deilna.

Ekki náðist í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar. Samkvæmt upplýsingum innan úr flokknum er útlit fyrir að Viðreisn bjóði fram undir sínum merkjum í Hafnarfirði í vor en ekki í samfloti við aðra.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV