Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samdi um þögn Steingríms – skiptastjóra stefnt

13.03.2018 - 23:04
Mynd með færslu
Karl Wernersson Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Athafnamaðurinn Karl Wernersson hefur stefnt skiptastjóra í þrotabúi Steingríms bróður síns fyrir dóm í því skyni að koma höndum yfir stærðarinnar skuldabréf sem hann telur sig eiga heimtingu á. Eignist hann bréfið fær hann jafnframt fyrsta veðrétt að landinu Galtalækjarskógi og eignum sem þar eru. Vegna þessa veðréttar er skuldabréfið langverðmætasta eignin í þrotabúi Steingríms. Karl telur bróður sinn hafa brotið gegn samningi um að hann talaði aldrei um hann við neinn.

Galtalækur að veði – keyptur á 225 milljónir

Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir áttu á árum áður í miklum viðskiptum saman. Þeir áttu saman hluti í ýmsum eignarhaldsfélögum og eitt af þeim var Váttur ehf. Í maí árið 2011 – hálfu þriðja ári eftir efnahagshrun – sömdu þeir bræður um uppgjör sín á milli. Uppgjörið kvað á um að Karl keypti Steingrím út úr sameiginlegum eignarhaldsfélögum þeirra.

Hluti samningsins sneri að félaginu Vætti. Fyrir hluti Steingríms í því félagi ætlaði Karl að greiða 120 milljónir króna með jöfnum afborgunum frá ársbyrjun 2016, fjórum sinnum á ári næstu tíu ár. Karl gaf út skuldabréf með þessum skilmálum sem komið var fyrir í vörslu Sigmundar Hannessonar, lögmanns Steingríms. Að veði var 84 hektara land Galtalækjarskógar og ýmsar fasteignir á landinu, sumarhús og fleira. Váttur hafði keypt landið árið 2007 á 225 milljónir króna.

Mynd með færslu
Galtalækur. Mynd: Galtalækur - Facebook

Keypti þögn Steingríms

Í samningnum á milli bræðranna var aftur á móti að finna óvenjulegt ákvæði: Steingrímur mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum tala um Karl við nokkurn mann. Ef hann gerði það féllu viðskiptin með Vátt úr gildi: Karl fengi skuldabréfið aftur í sínar hendur og Steingrímur hlut sinn í Vætti. Orðrétt var ákvæðið á þessa leið:

Seljandi [Steingrímur] skuldbindur sig til þess að tjá sig ekki við neinn aðila um málefni sem tengjast kaupanda [Karli] og samskipti seljanda við kaupanda og félög og aðila er honum tengjast, þar með talið, en þó ekki tæmandi, við banka, fjölmiðla, yfirvöld, skiptastjóra Milestone ehf. ofl. Færi kaupandi fram lögfullar sannanir fyrir því að seljandi geri það samt sem áður fellur niður greiðsluskylda skv. lið 3.1, auk þess sem sala á Vætti ehf. gengur til baka, það er seljandi fær afhendan á ný eignarhluta sinn í Vætti ehf. Skal þá Sigmundur Hannesson hrl. afhenda kaupanda veðskuldabréf er hvílir á Galtalæk.

Sagði Karl siðblindan einræðisherra

Í október 2013 krafðist Karl þess svo að þetta samningsákvæði yrði virkjað: hann fengi skuldabréfið aftur enda hefði Steingrímur brotið gegn þagnarskylduákvæðinu. Það átti hann að hafa gert í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara haustið 2011.

Steingrímur hafði raunar áður farið í skýrslutöku hjá saksóknara. Það var sumarið 2009, áður en samningurinn með þagnarskyldunni var gerður. Þeim skýrslum var lekið í DV og þar fór Steingrímur afar hörðum orðum um bróður sinn, sagði hann meðal annars vera siðblindan og kallaði hann einræðisherra. Þá sagði hann að Karl hefði gerst sekur um fjölmörg auðgunarbrot í rekstri eignarhaldsfélagsins Milestone, sem þeir áttu saman.

Mynd með færslu
Steingrímur Wernersson Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson

Fór aftur í yfirheyrslu eftir samningsgerðina

Haustið 2011 fór Steingrímur svo aftur í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara. Ekki liggur fyrir hvað hann sagði í það skipti en ljóst er að Karl telur að með því að ræða um hann við saksóknara hafi Steingrímur brotið þetta samningsákvæði. Hann krafðist þess því í október 2013 að fá skuldabréfið aftur en þeirri kröfu var ekki sinnt.

Karl ítrekaði kröfuna löngu síðar, í janúar 2016, og fór þá fram á að skuldabréfið yrði tekið úr innheimtu. Hann hafði átt að byrja að borga þá um áramótin. Hann sagðist raunar vera fús til að halda áfram að borga af bréfinu með fyrirvara um að hann ætti þá endurkröfu á Steingrím þegar endanlega væri búið að leysa úr ágreiningnum um það hver væri réttmætur eigandi þess. Hann greiddi svo fyrstu fjórar greiðslurnar en ekki fleiri.

Sagði Steingrím ekki ábyrgan fyrir orðum blaðamanns

Í fyrra höfðaði Karl svo mál á hendur Sigmundi Hannessyni, lögmanni Steingríms, í því skyni að fá skuldabréfið, sem nú stendur í um 200 milljónum, afhent. Hann taldi ljóst að Steingrímur hefði brotið samningsákvæðið um þagnarskylduna, bæði með því að tala um sig í áðurnefndri yfirheyrslu hjá saksóknara haustið 2011 og líka í blaðaviðtali við Fréttatímann í september 2016.

Sigmundur hafnaði þessu: sagði fráleitt að þagnarskylduákvæðið ætti að ná til skýrslugjafar hjá saksóknara, enda hafi Steingrími verið skylt að lögum að gefa þá skýrslu, og að ekkert lægi fyrir um að Steingrímur hefði veitt umrætt viðtal í Fréttatímanum. Hafi hann gert það geti hann ekki borið ábyrgð á skrifum blaðamannsins eða því að rétt sé eftir honum haft. Hann taldi sér því ekki heimilt að afhenda bréfið.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á málsvörn Sigmundar og úrskurðaði í nóvemberlok að Karl ætti rétt á að fá skuldabréfið frá lögmanninum með svokallaðri aðfarargerð, enda hefði Steingrímur sannarlega brotið gegn þagnarskylduákvæði samningsins.

Mynd með færslu
 Mynd: ©Þórgunnur Oddsdóttir

Skulda tíu milljarða

Málinu var skotið til Hæstaréttar en áður en það kom þangað varð Steingrímur gjaldþrota. Hann hafði verið dæmdur ásamt Karli bróður sínum og fleirum til fangelsisvistar í svokölluðu Milestone-máli og í kjölfarið dæmdur í öðru máli til að greiða þrotabúi Milestone fimm milljarða króna. Sú skuld stóð í fyrra í um tíu milljörðum og á grundvelli hennar var hann knúinn í þrot. Lögmaðurinn Helgi Birgisson var skipaður skiptastjóri þrotabús Steingríms.

Og þegar mál Karls gegn Sigmundi var loksins tekið fyrir í Hæstarétti var Sigmundur ekki lengur með skuldabréfið í sinni vörslu: hann hafði látið það í hendur skiptastjórans Helga. Hæstiréttur vísaði málinu því frá – Sigmundur væri ekki réttur aðili að málinu fyrst hann héldi ekki lengur á bréfinu margumþrætta.

Skiptastjóri segir Karli að gera kröfu í bú bróður síns

Nú hefur Karl því höfðað mál á hendur skiptastjóranum til að freista þess enn að fá skuldabréfið í hendur, enda hefur skiptastjórinn neitað að láta hann hafa það og sagt að hann þurfi einfaldlega að gera kröfu í bú bróður síns eins og aðrir. Karl gerir þá kröfu í málinu sem hann hefur höfðað að aðfarargerðinni sem hófst hjá Sigmundi verði fram haldið hjá skiptastjóranum. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.

Fái Karl bréfið í hendur fylgir því fyrsti veðréttur að Galtalækjarskógi, sem er mikils virði. Fyrsti veðréttur er alla jafna forgangskrafa í þrotabú.

Gjaldþrot vofir yfir Karli

Skiptastjóri Milestone fór í fyrrasumar fram á gjaldþrot Karls Wernerssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur, á grundvelli sömu tíu milljarða króna kröfu og leiddi til gjaldþrots Steingríms. Það mál er nú í biðstöðu á meðan beðið er eftir endanlegum Hæstaréttardómi um tíu milljarða kröfuna.