Sambýli í Hvalfirði vatnslaust í 10 mánuði

20.01.2015 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Heimili fyrir fatlað fólk í Herdísarholti hefur verið vatnslaust í tíu mánuði. Hvalfjarðasveit telur sér ekki skylt að koma vatnsbóli þar í lag og á hverjum degi þarf að sækja vatn á kerru til slökkviliðsins á Akranesi. „Það er nóg vatn á Íslandi," segir framkvæmdastjórinn.

Gunnar Tyrfingsson og Unnur Herdís Ingólfsdóttir  í Herdísarholti reka heimili fyrir fjóra fatlaða menn. Þau fengu byggingarleyfi út á gamla vatnslind en hún þornaði í þurrkasumrum. Síðan þá hafa þau í tvígang látið bora eftir vatni og Gunnar segist hafa grípið til ýmissa ráða, meðal annars borið vatn í bæinn í kókflöskum. 

„Svo setti ég upp safntanka hérna sem ég get dælt vatni yfir í og svo inn í hús. Þá losnuðum við við þetta kókflöskudæmi," segir hann.  

Eftir að seinni borholan brást í apríl hefur verið vatnslaust, í bráðum 10 mánuði. 

„Ég er með svona þúsund lítra tank sem ég er með að kerru og fer með hana á Akranes. Þegar að blíaþvottaplönin voru opin fór ég þangað. En svo hefur slökkviliðið leyft mér að koma og þeir dæla á tankinn. Þetta eru þúsund lítrar í hvert skipti sem endist í sólarhring." 

Þegar verið er að þvo þvotta þarf stundum að fara tvær ferðir á dag sex kílómetra leið til Akraness. Þar baðar heilimilfólk sig í sundlauginni. Í vetur hefur stundum verið erfitt að sækja vatnið vegna veðurs og frosið í lögnum sem liggja milli tanka. Hvalfjarðarsveit rekur vatnsveitu í Hagamelshverfi sem er 7-8 kílómetra í burtu og á Grundartanga. Sveitarfélagið hefur ekki viljað kosta vatnsveitu að Herdísarholti sem telst dreifbýli. Það yrði fordæmisgefandi og sveitarfélagið vísar í jafnræðisreglu. Gunnar telur hins vegar ósanngjarnt að sveitarfélagið sjái sumum íbúum fyrir vatni en öðrum ekki. Lausnin er reyndar í sjónmáli en hún kostar þrjár milljónir. Þau hafi fengið leyfi hjá Orkuveitunni til að tengjst lind í Akrafjalli en það verður ekki fyrr en í vor. Leggja þarf lögn tvo og hálfan kílómetra. 

„Og það er kostnaður sem lendir alfarið á okkur og við vitum ekki ennþá hvernig er besta að fjármagna það. Það á náttúrulega ekki að vera á þessu herrans ári 2015 svona vesen með vatn. Það er nóg vatn á Íslandi," segir Gunnar. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi