Hljómsveitirnar Misþyrming, Wormlust, Carpe Noctem, Naðra og Svartidauði eru kannski ekki þær hljómsveitir sem tróna í efstu sætum vinsældarlistana en þær ásamt fjölda annarra tilheyra einni frjóustu tónlistarsenu landsins nú um mundir. Tónlistarsenu sem kennir sig við black metal, eða svartmálm. Andri Freyr Viðarsson spurði tvo af framámönnum senunnar, þá Hafstein Viðar Ársælsson úr hljómsveitinni Wormlust og Dag Gonzales úr Misþyrmingu hvað það væri sem einkenndi svartmálmstónlist?
„Hvassir gítarar, ærandi trommur, frumöskur,“ segir Hafsteinn Viðar. „Ég myndi segja að þetta væri þrúgandi og dáleiðandi tónlist sem verður persónuleg. Textarnir fjalla mikið um dulspeki. Þetta er oft eins og sambland af englakórum og keðjusögum,“ segir Hafsteinn um frumkjarnann í svartmálmstónlistinni. Misþyrming hefur fengið mikil lof fyrir tónlist sína og hlaut meðal annars Kraumsverðlaunin fyrir hljómplötu sína Söngvar elds og óreiðu árið 2015. Dagur segir svartmálminn frábrugðinn frá annarri þungarokktónlist. „Mun öfgakenndari en aðrar tegundir af þungarokki, heiftúðlegur, andstyggilegur og dulurfullur. Það er voða mikill nördismi í þessu, norræn goðafræði getur til dæmis verið vinsælt þema,“ segir Dagur.