Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sambland af englakórum og keðjusögum

Mynd:  / 

Sambland af englakórum og keðjusögum

18.12.2018 - 14:44

Höfundar

Svartmálmur er sá angi þungarokktónlistar sem farið hefur hve mest vaxandi á Íslandi síðustu misseri og hafa þær hljómsveitir sem iðka þá tónlistarstefnu náð miklum árangri á heimsvísu. Meðal þessarra sveita eru Misþyrming og Wormlust.

Hljómsveitirnar Misþyrming, Wormlust, Carpe Noctem, Naðra og Svartidauði eru kannski ekki þær hljómsveitir sem tróna í efstu sætum vinsældarlistana en þær ásamt fjölda annarra tilheyra einni frjóustu tónlistarsenu landsins nú um mundir. Tónlistarsenu sem kennir sig við black metal, eða svartmálm. Andri Freyr Viðarsson spurði tvo af framámönnum senunnar, þá Hafstein Viðar Ársælsson úr hljómsveitinni Wormlust og Dag Gonzales úr Misþyrmingu hvað það væri sem einkenndi svartmálmstónlist?

„Hvassir gítarar, ærandi trommur, frumöskur,“ segir Hafsteinn Viðar. „Ég myndi segja að þetta væri þrúgandi og dáleiðandi tónlist sem verður persónuleg. Textarnir fjalla mikið um dulspeki. Þetta er oft eins og sambland af englakórum og keðjusögum,“ segir Hafsteinn um frumkjarnann í svartmálmstónlistinni. Misþyrming hefur fengið mikil lof fyrir tónlist sína og hlaut meðal annars Kraumsverðlaunin fyrir hljómplötu sína Söngvar elds og óreiðu árið 2015. Dagur segir svartmálminn frábrugðinn frá annarri þungarokktónlist. „Mun öfgakenndari en aðrar tegundir af þungarokki, heiftúðlegur, andstyggilegur og dulurfullur. Það er voða mikill nördismi í þessu, norræn goðafræði getur til dæmis verið vinsælt þema,“ segir Dagur.

Svartmálm má rekja til Noregs á níunda áratugnum. Hljómsveitir á borð við Mayhem, Burzum og Darkthrone mynduðu senu sem flestir óttuðust. Burzum var verkefni eins manns, hins norska Varg Vikernes, og má segja að sé brautryðjendasveit innan þessarar stefnu. Vikernes gerði svartmálminn heimsfrægan meðal annars fyrir að standa fyrir kirkjubrunum í Noregi en í ofanálag myrti hann svo fyrrverandi hljómsveitarfélaga sinn og vin, Øystein "Euronymous" Aarseth úr hljómsveitinni Mayhem. Það mætti því ætla að tónlistarstefnan sé ekki hættulaus. „Á tíunda áratugnum var vissulega mikil ringulreið í svartmálmsheiminum, menn voru að brenna kirkjur og drepa hver annan. Þetta var ekki safe space. Það er það svo sem ekki enn í dag en menn eru þó ekki að brenna kirkjur, það er eiginlega ekki lengur kúl,“ segir Dagur réttilega. 

Þó svo að svartmálmurinn hafi verið til frá því á níunda áratugnum skaut hann ekki upp rótum á Íslandi fyrr en á tíunda áratugnum. Ekki voru það margar hljómsveitir starfandi undir þeim merkjum og segja mætti að svartmálmurinn hafi ekki byrjað að blómstra fyrr en nýverið. „Á tíunda áratugnum voru eiginlega bara þrjú bönd, Thule, Sólstafir og Asmodeus. En þessi bönd runnu hálfpartinn út í síðrokksandinn. Í raun og veru verður þessi sena ekki til fyrr en svona fyrir sex árum síðan,“ segir Hafsteinn. Dagur bætir því við að þá hafi fleiri hljómsveitir verið stofnaðar, fleiri hljómplötur í útgáfu og tónleikahald aukist.

Mynd með færslu
 Mynd:
Í bókinni Svartmálmi hefur Hafsteinn Viðar Ársælsson tónlistarmaður og ljósmyndari tekið saman heimildir í myndum og máli um íslenskan svartmálm.

Eins og fyrr segir er útgáfan ansi blómleg og gróskan talsverð í íslenskum svartmálmi. Dagur segir þá félaga innan Misþyrmingar hafa lagt á þau ráð að gefa út tónlist á kassettum. „Við áttuðum okkur á því fyrir nokkrum árum að við værum með svo mikið magn af tónlist milli handanna að við yrðum að gera eitthvað í því. Setja hatt yfir þetta og gefa þetta út. Það er ekki mjög auðvelt að fara út í framleiðslu tónlistar hér á Íslandi en það er nokkuð ódýrt að gefa út kassettur. Við fórum bara í það og það hefur gengið mjög vel að selja þær og senda út um allan heim,“ segir Dagur Gonzales.
Hafsteinn Viðar er í eins manns hljómsveitinni Wormlust en er einnig ljósmyndari og gaf út fyrr á árinu bókina Svartmálmur. Þar skrásetur Hafsteinn íslensku senuna í myndum. „Þetta er svona tímahylki fyrir senuna. Mér fannst eins og enginn væri að skrásetja þetta. Tónlistin er þarna til staðar og verður næstu hundrað árin ef við rústum þessu ekki algjörlega en mér fannst að sjónræna hliðin myndi kannski glatast og ég vildi sinna því,“ segir Hafsteinn.