Samband milli mengunar og dauðsfalla

13.04.2015 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísbendingar eru um að samband sé á milli styrks á brennisteinsvetni frá jarðhitavirkjunum í nágrenni höfuðborgarinnar og fjölda dauðsfalla. Þetta sýnir ný rannsókn en höfundur hennar segir frekari rannsóknir nauðsynlegar.

 

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir hefur rannsakað áhrif loftmengunar á heilsu frá árinu 2009. Það var hluti af doktorsverkefni hennar við Háskóla Íslands að skoða tengsl fjölda dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu við styrk brennisteinsvetnis í lofti frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að samband sé þarna á milli. Þegar brennisteinsvetnismengun jókst fjölgaði dauðsföllum. „Það sem kom sérstaklega fram var að það var marktækt samband yfir sumarmánuðina og svo fundum við einnig marktækt samband hjá eldra fólki, 80 ára og eldra. Aukningin í dauðsföllum var frá rétt tæpum tveimur prósentum meðal eldra fólks upp í fimm prósent yfir sumarmánuðina,“ segir Ragnhildur.

Hún segir frekari rannsóknir nauðsynlegar. „Það hefur ekki verið framkvæmd önnur svona rannsókn hér á Íslandi og í heildina eru fáar rannsóknir á þessu sviði, því er erfitt að alhæfa um hvort það er orsakasamhengi hér á milli. En það var önnur rannsókn sem var líka gerð hér á Íslandi, sem var að athuga sambandið milli brennisteinsvetnis og astmalyfjaúttekta og þar fannst samband einnig. Því tel ég nauðsynlegt að skoða þetta betur.“

Fréttastofa leitaði viðbragða við rannsókninni hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Landlæknisembættinu. Á hvorugum staðnum höfðu starfsmenn kynnt sér hana og gátu því ekki tjá sig um niðurstöðurnar.

 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV