Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Salerni vantar fyrir ferðamenn á Snæfellsnesi

25.02.2018 - 12:51
Mynd með færslu
Á Arnarstapa Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Salernismál eru í ólestri á Snæfellsnesi. Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði, segir að þegar hafi skapast vandræði vegna þess. Meir en hálf milljón ferðamanna koma á Snæfellsnes á hverju ári.

26  til 29 skemmtiferðaskip koma árlega til Grundarfjarðar og með þeim tólf til fjórtán þúsund farþegar. Stór hluti þeirra, fimmtíu til sjötíu og fimm prósent, fer í rútur og ferðast um nesið og taka ferðirnar tvo til 5 klukkutíma. Hafsteinn segir að farþegarnir séu þó aðeins brot af heildarfjölda ferðamanna á Snæfellsnesi sem eru í kringum sexhundruð þúsund árlega. 

„Það sem þarf, og er sama hér og víða, það eru salernismál. Þau eru  í ólestri og við verðum að viðurkenna það fyrir okkur,“ segir Hafsteinn. Hann segir að það vanti klósett á alla viðkomusatði á nesinu, sérstaklega í þjóðgarðinum og á öðrum viðkomustöðum ferðafólks.  

Hafsteinn segir að ráðast þurfi í heildstætt átak í salernismálunum. Þegar hafi skapast vandræði vegna þeirra. 

„Þetta fólk sem er að koma með skemmtiferðaskipum, það er mikið eldra fólk og það þarf náttúrlega að komast á salerni á tveggja til fimm tíma rúnti. Við þurfum að sjá sóma okkar í því að byggja þetta upp. Ef við ætlum að vera áfram að bjóða, ekki bara af skemmtiferðaskipum, heldur hinum almenna ferðamanni þá þurfum við að bæta þetta.“ 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV