Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sala á heimaslátruðu gæti opnað nýja möguleika

08.11.2018 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Það vakti athygli á dögunum þegar forstjóri MATÍS tók þátt í að selja kjöt af heimaslátruðu á bændamarkaði á Hofsósi. Slíkt er ekki leyfilegt en tilgangurinn var vekja athygli á tillögum MATÍS sem gætu gert bændum kleift að selja og dreifa kjöti sem þeir slátra sjálfir. Bóndi í Berufirði segir mikilvægt að bændur fái að setja upp örsláturhús á lögbýlum og MATÍS hefur lagt til hvernig kerfi og kröfur mætti smíða í kringum slíka starfsemi.

Oddný Anna Björnsdóttir er nýorðin gerðist nýlega bóndi í Gautavík í Berufirði og hyggur á heimavinnslu. Hún hefur sett á 27 gimbrar og þrjá hrúta en að óbreyttu þarf hún að senda lömb frá Berufirði til Vopnafjarðar eða Húsavíkur í slátrun næsta haust, um 250 eða 300 kílómetra og fá skrokkana senda aftur sömu leið. „Staðan í dag er sú að bændur sem vilja vinna úr sínum afurðum þurfa að senda sín lömb í sláturhús um misjafnlega langan veg og þá hefur kostnaður við heimtöku hækkað verulega, hækkað svo mikið að margir bændur sem vinna ekki mikið úr afurðunum telja það varla svara kostnaði. Það er almennt vitað að heimaslátrun er stunduð og mjög auðvelt að nálgast slíkt kjöt. Það er vilji til þess að færa þetta upp á yfirborðið og krafa um að reglum verði breytt þannig að bændur megi slátra heima en að um það gildi sér regluverk,“ segir Oddný Anna.

Bændur þyrftu meðal annars að sækja ákveðin námskeið í kjötmati og velferð dýra við aflífun. Oddný sem er matvæla- og landbúnaðarráðgjafi og verkefnastjóri hjá Matarauði Íslands hefur farið um landið og rætt við bændur um þessi mál. Hún segir að flutningur og slátrun í sláturhúsi sé dýrt og verra fyrir dýrin. Sala úr örsláturhúsum heima á bæjum gæti reynst mikilvæg fyrir suma bændur. „Þetta geti orðið til þess að bændur gætu haft eitthvað út úr sínum búskap sem eins og allir vita í dag að er mjög þröngur,“ segir Oddný Anna.

Á vef MATÍS má kynna sér margvíslegt efni um heimaslátrun og örsláturhús.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV