Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Saksóknari telur Mossack Fonseca glæpasamtök

10.02.2017 - 11:19
Kenia Procell, ríkissaksóknari í Panama.
Kenia Procell, ríkissaksóknari í Panama. Mynd: EPA - EFE
Handtökskipan var gefin út í Perú í morgun á hendur Alejandro Toledo fyrrverandi forseta landsins. Hann er sakaður um að hafa þegið 20 milljónir dollara í mútur frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht. Málið er hluti af Bílaþvottahneykslinu - einu stærsta spillingarmáli Rómönsku Ameríku, sem tengist mútum til hátt settra embættismanna. Í nótt var gerð húsleit á skrifstofum lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama vegna rannsónar á málinu. 

Kenia Procell, ríkissaksóknari í Panama, sagði á blaðamannafundi seint í gær að talið væri að lögfræðistofan Mossack Fonseca sé í raun glæpasamtök sem vinni að því að fela eignir og peninga sem aflað hafi verið með vafasömum leiðum.

Ramón Fonseca, annar af eigendum Mossack Fonseca, segir lögfræðistofuna ekkert tengjast Odebrecht eða öðrum fyrirtækjum sem koma við sögu í Bílaþvottarhneysklinu.

Mossack Fonseca hefur haldið utan um aflandsfélög. Upplýsingar sem láku frá Mossak Fonseca í apríl í fyrra komu upp um aflandsreikninga milljóna auðmanna - þar á meðal hundruða Íslendinga.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV