Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Saksóknari fellir niður annað Hlíðamálið

05.02.2016 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál tveggja manna sem kærðir voru fyrir að nauðga konu í íbúð við Miklubraut um miðjan október á síðasta ári. Þetta staðfestir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi mannanna.

Málið vakti athygli þegar greint var frá því á forsíðu Fréttablaðsins í byrjun nóvember. Þar var fullyrt að íbúð í Hlíðunum hefði verið útbúin til nauðgana og eftir að fréttin birtist voru myndir af mönnunum birtar á samfélagsmiðlum og þeir nafngreindir. 

Þá varð mikil umræða undir myllumerkinu #almannahagsmunir. Nokkur fjöldi safnaðist saman fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu um kvöldið til að mótmæla því að lögreglan hefði ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur.

Rétt er að taka fram að nauðgunarkæra gegn öðrum manninum er enn til meðferðar hjá héraðssaksóknara.  Hún á að hafa átt sér stað í september í sömu íbúð en var kærð til lögreglu um svipað leyti og hitt málið sem nú hefur verið fellt niður

Vilhjálmur Hans kærði konurnar tvær fyrir rangar sakargiftir. Rannsókn á því máli var hætt. Hann kærði einnig aðra þeirra fyrir kynferðisbrot.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV