Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sakborningar í Al Thani kvarta til umboðsmanns

10.01.2016 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson, sem allir hlutu þungan dóm í Al thani-málinu, hafa leitað til umboðsmanns Alþingis þar sem þeir kvarta undan störfum Páls Winkels, fangelsismálastjóra. Mennirnir afplána allir dóm á Kvíabryggju. Kvörtun þremenninganna lýtur að fjórum atriðum, meðal annars fullyrða þeir að bandaríski kvikmyndargerðamaðurinn Michael Moore hafi fengið aðgang að fangelsinu til að ná af þeim myndum.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá málinu í kvöld. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, vildi ekki tjá sig þegar fréttastofa náði af honum tali. Hann hefur frest til 1. febrúar næstkomandi til að svara erindi umboðsmanns.

Fréttastofa RÚV hefur umrætt erindi umboðsmanns. Þar kemur fram að kvörtun bankamannanna þriggja lúti að upplýsingagjöf til fjölmiðla og tilteknum ummælum Páls í þeim. Í erindinu er meðal annars nefnt frétt mbl.is 10. október um að beiðnir hefðu komið frá ákveðnum föngum um að fá að neyta rauðvíns og annarra áfengra drykkja með mat við sérstök tilefni.

Umboðsmaður óskar eftir upplýsingum á hverju þessi orð Páls hafi verið byggð og vill sömuleiðis fá afrit af þeim gögnum sem kunni að vera til um óskir fanga um neyslu rauðvíns. 

Þá beinist kvörtun þremenninganna að tilteknum ummælum Páls í föstudagsviðtali Fréttablaðsins í byrjun nóvember þar sem þeir telja að fangelsismálastjóri hafi gefið í skyn beinar og óbeinar mútur „og vísað í orðum yðar til þeirra sem sæta fangelsisrefsingu „tengt hruninu“,“ eins og það er orðað í erindi Umboðsmanns.

Umboðsmaður óskar einnig eftir skýringum á ummælum Páls um fyrirhugað reiðnámskeið á Kvíabryggju. Nefnir umboðsmaður sérstaklega frétt visir.is frá 10. nóvember og ummæli Páls í Morgunútvarpi Rásar 2 daginn eftir. 

Sú athugasemd sem vekur þó hvað mestu athyglina er sú fullyrðing þremenningana að bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore hafi fengið með sérstöku leyfi fangelsismálastofnunar aðgang að Kvíabryggju til að ná myndum af þeim. Moore hafi fengið að mynda þar og rætt við aðra fanga um þá.

Kjarninn greindi frá fyrirhuguðum tökum Moore á Kvíabryggju fyrir skemmstu og að hann hefði reynt að ná tali af sakborningum í Al thani-málinu. Af því varð ekki og Kjarninn sagðist hafa heimildir fyrir þvíað reynt hefði verið að koma í veg fyrir að aðstoðarfólk Moore færi að Kvíabryggju til að mynda. 

Þremenningarnir telja að framganga Páls hafi verið í andstöðu við lög og vandaða stjórnsýsluhætti og telja að upplýsingagjöf hans hafi ekki verið sannleikanum samkvæm.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV