
Sakar ráðherra um ólögmæta embættisfærslu
Þetta kemur fram í opnu bréfi til forseta Alþingis, sem Ástráður sendi í kvöld. Tilkynnt var í morgun að Sigríður gerði tillögu um að fimmtán umsækjendur yrðu skipaðir sem dómarar við Landsrétt, 11 þeirra voru meðal þeirra sem matsnefndin taldi hæfasta. Sigríður skipti hins vegar fjórum út með þeim skýringum að hún vildi að reynsla af dómarastörfum vægi þyngra en í niðurstöðum matsnefndarinnar.
Í bréfinu segir Ástráður að tilgangurinn sé að vekja athygli forseta Alþingis á því sem hann teldur vera tilraun ráðherra til að afla sér heimildar Alþingis til að standa að ólögmætri embættisfærslu. Í lögum segi að óheimilt sé að skipa í dómaraembætti þann sem matsnefnd hefur ekki talað hæfastan meðal umsækjenda. Frá því megi þó víkja ef Alþingi samþykki tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda. Í þessu tilfelli sé Alþingi ekki að velja milli nafngreindra umsækjenda.
Frávik ráðherra frá tillögu matsnefndar uppfylli þar að auki ekki kröfur sem gera verði til handahafa veitingarvalds þegar horft sé til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar. Ef ráðherra ætli að víkja frá tillögu nefndar þurfi að koma til rökstuðningur ráðherra og gera verði sömu kröfur til þess rökstuðnings og rökstuðnings matsnefndar. Almennur rökstuðningur, eins og í tilfelli Sigríðar Andersen, sé ekki fullnægjandi.