Saka stjórnvöld í Suður-Súdan um græðgi

11.03.2017 - 16:56
In this photo taken Saturday, Feb. 25, 2017 and released by the World Food Programme (WFP), a family waits for food assistance to be distributed in Thonyor, Leer County, one of the areas in which famine has been declared, in South Sudan. The United
Fólk sem bíður eftir matargjöfum á einu þeirra svæða í Suður-Súdan þar sem hungursneyð hefur verið lýst yfir.  Mynd: AP
Stjórnvöld í Suður-Súdan liggja undir ámæli hjálparstofnana fyrir að hafa tífaldað gjald fyrir vegabréfsáritanir hjálparstarfsmanna sem koma til landsins. Hungursneyð var lýst yfir í Suður-Súdan í síðasta mánuði og þar eru milljónir íbúa í hættu.

Hungursneyð var lýst yfir í Suður-Súdan í síðasta mánuði; Sameinuðu þjóðirnar telja að meira en sjö og hálf milljón íbúa þarfnist aðstoðar - tugir þúsunda eiga á hættu að deyja úr hungri og um ein milljón manna er á barmi hungursneyðar.

Forseti Suður-Súdans sagði nýlega að tryggt yrði að hjálparstarfsmenn fengju óheftan aðgang að svæðum þar sem hjálpar er þörf - en í byrjun mars ákváðu stjórnvöld í landinu hins vegar að hækka margfalt gjaldið sem tekið er fyrir vegabréfsáritanir hjálparstarfsmanna; það hefur verið á bilinu eitt til þrjú hundruð Bandaríkjadalir, rúmlega tíu til um þrjátíu þúsund krónur, en hefur nú verið hækkað tífalt.

Alþjóðleg hjálparsamtök á borð við Amnesty International hafa gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega, og ásaka stjórnvöld í Suður-Súdan um að vilja græða á vandamáli sem þau hafi sjálf átt stóran þátt í að búa til; nú yrði mun erfiðara fyrir hjálparsamtök að senda fólk til landsins.

Sameinuðu þjóðirnar og önnur samtök hafa ítrekað lýst því yfir að hungursneyðin í Suður-Súdan sé að stórum hluta til komin vegna átaka innanlands og hafa kvartað yfir því að hjálparstarfsmenn komist ekki á svæðin þar sem ástandið er verst auk þess sem hjálpargögnum hefur ítrekað verið stolið; Stephen O´Brien, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í dag að hungursneyðin væri af manna völdum; stríðandi fylkingar væru valdar að henni - sem og þeir sem lyftu ekki litla fingri til að koma í veg fyrir hana. 

 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi