
Réttarhöldin sem hófust í morgun eru ein af nokkrum sem tengjast misferlinu í kringum sjóðinn 1MDB, en þau lang umfangsmestu. Sjóðurinn var stofnaður árið 2009 og kom Najib að stofnun hans.
Opinbert markmið sjóðsins var að auðga efnahag Malasíu, en saksóknari sagði í morgun að Najib, sem var forsætisráðherra á árunum 2009 þar til í fyrra, hefði ásamt vinum og samstarfsmönnum dregið sér fé úr honum og nýtt hann í eigin þágu. Talið er að jafnvirði allt að 560 milljarða króna hafi horfið úr sjóðnum.
Þetta eru ekki fyrstu réttarhöldin yfir Najib og verða ekki þau síðustu, en þessi snúast um tuttugu og fimm ákærur, tuttugu og eina fyrir peningaþvætti og fjórar fyrir misnotkun valds. Þá er Najib, sem einnig gegndi embætti fjármálaráðherra, sakaður um að hafa með ólöglegum hætti fengið sjálfur jafnvirði um 67 milljarða úr sjóðnum.
Najib hafi haft náið samstarf við kaupsýslumanninn Jho Low, sem fer huldu höfði, en er eftirlýstur bæði í Malasíu og Bandaríkjunum. Jho Low hafi ekki haft neitt formlegt hlutverk við sjóðinn en engu að síður ráðið miklu um starfsemi hans.