Sagan mín er náttúrulega út í hött

Mynd:  / FIBAEurope

Sagan mín er náttúrulega út í hött

26.04.2018 - 17:00
Tryggvi Snær Hlinason er ein helsta vonarstjarna landsins í körfuknattleik en hann spilar um þessar mundir með einu besta liði Spánar, Valencia. Hann vakti mikla athygli nú nýverið, bæði hér heima og erlendis, þegar að hann gaf kost á sér í nýliðaval NBA. Hann ústkýrði það aðeins hvað það þýðir að gefa kost á sér í þessa sterkustu deild heimsins, hvers vegna hann ákvað að gera það og hver möguleg framtíð hans sé.

„Maður fær viðbrögð og getur jafnvel fengið útskýringu að það vanti þetta upp á eða ég þarf að bæta mig í þessu, maður getur svo unnið með það, sérstaklega fyrir næsta ár,“ segir Tryggvi meðal annars um það hvers vegna hann ákvað að gefa kost á sér í ár. Með þessu er hann líka að vekja athygli á sér hjá liðunum, hvort sem að hann muni enda í NBA á næstu leiktíð eða seinna meir.

Saga Tryggva er svo ekki síst það sem að fjölmiðlar um allan heim hafa gripið í enda er hún svoldið út í hött, eins og Tryggvi segir sjálfur. Hann hefur lengst af búið í Svartárkoti í Þingeyjarsveit sem er frekar afskekktur staður inni í miðju landi og byrjaði ekki að æfa körfubolta fyrr en að hann flutti Akureyrar í skóla fyrir rúmlega 4 árum, þá sextán ára gamall. Síðan þá hefur hann náð hreint ótrúlegum árangri á ótrúlega stuttum tíma.

Tryggvi Snær var gestur í Núllinu á RÚV núll en viðtalið í heild sinni má heyra hér fyrir ofan.