Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Saga um þjáningu sem óx líkt og rótarskot

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt

Saga um þjáningu sem óx líkt og rótarskot

31.10.2018 - 11:27

Höfundar

„Mér fannst, í ljósi heimsins í dag og þessa miðaldra valds karlmannsins, gaman að skoða þann sem hefur ekki vald og á ekkert og er ekkert,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir um skáldsöguna Ör. Auður fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina í gær.

Ör er saga um þjáningu, ekki síst þjáningu Jónasar Ebenesers Snæland, fertugs, gagnkynhneigðs, nýfráskilins karlmanns og föður einnar dóttur. Jónas sér fátt framundan í lífi sínu annað en að binda enda á það. Af tillitssemi við sína nánustu, einkum einkadótturina Guðrúnu Vatnalilju, ákveður hann að fara úr landi til að fullkomna ákvörðun sína og hann tekur með sér borvél.

Jórunn Sigurðardóttir ræddi við Auði Övu um bókina skömmu eftir að hún kom út 2016. Þetta er bók um sársaukann og örin sem táknmynd um þjáningu mannsins, segir Auður Ava. Bókin óx sem rótarskot – en miðjan er hugmyndin um að þjáning og hamingja svipi saman.

Mynd: EFE / EPA
Auður Ava les upp úr skáldsögunni Ör og ræðir við Jórunni Sigurðardóttur um bókina.

„Mér fannst, í ljósi heimsins í dag og þessa miðaldra valds karlmannsins, gaman að skoða þann sem hefur ekki vald og á ekkert og er ekkert. Hann lýsir sjálfum sér að hann sé venjulegur. En það er engin þjáning banal eða ómerkileg. Auðvitað er maður að búa til smáheim, svona míkrókosmós, en á einhvern hátt er maður líka að reyna að spegla stærri sannleika eða stærri heim í gegnum hann.“

Auður Aðalsteinsdóttir ræddi við Katrínu Jakobsdóttur bókmenntafræðing, þá alþingismann og nú forsætisráðherra, og Úlfar Bragason sérfræðing á Árnastofnun um bókina í þættinum Orð um bækur á Rás 1.

„Þessi saga, og fleiri af hennar sögum, tala mjög sterkt til manns,“ segir Katrín um Ör. „Hún er að fást við viðfangsefni mannlegs eðlis í sínum sögum og mann langar til að verða betri manneskja þegar maður les þessa sögu.“

Mynd: Benedikt / Benedikt
Auður Aðalsteinsdóttir ræddi við Katrínu Jakobsdóttur og Úlfar Bragason um Ör.

„Það sem mér finnst þegar ég les bækurnar hennar er að mér líður svo vel,“ segir Úlfar um Auði Övu. „Hún er svo manneskjuleg. Hún skrifar mjög fallegan texta og það er ákveðinn húmor í bókunum en hann er svo velviljaður. Það er ekki verið að hnýta í neinn. Það er þannig þegar maður er búinn að lesa þessar bækur hennar að þá langar mann að lesa meira.“

Ör er fimmta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur sem er listfræðingur að mennt og kenndi um árabil listfræði við Háskóla Ísland. Auður er önnur íslenskra kvenna til að fá bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Fríða Á. Sigurðardóttir fékk þau árið 1992 fyrir bókina Meðan nóttin líður. Áður hefur Norðurlandaráð verðlaunað Ólaf Jóhann Sigurðsson (1976), Snorra Hjartarson (1981), Thor Vilhjámsson (1988), Einar Má Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrði Elíasson (2011).

Tengdar fréttir

Menningarefni

Verðlaunin mikil viðurkenning fyrir Íslendinga

Menningarefni

Tileinkar þýðendum verðlaunin

Tónlist

Íslendingar með tvenn verðlaun Norðurlandaráðs

Bókmenntir

Auður fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs