Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Saga breytinga í vistkerfi Mývatns

06.05.2016 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Breytingar á vistkerfi Mývatns eiga sér langa sögu og þrátt fyrir að umræðan hafi verið hávær síðustu daga, hefur fréttastofa ítrekað fjallað um breytingar á Mývatnssvæðinu síðustu ár. Kúluskíturinn hefur horfið, andarungar drepist unnvörpum og hvítur litað vatnið.

Um langt skeið hafa áhugamenn, náttúrufræðingar, veiðimenn og síðast en ekki síst íbúar í Mývatnssveit haft áhyggjur af Mývatni, vegna breytinga sem orðið hafa í lífríki í og við vatnið. Á síðustu dögum hefur umræðan verið hávær, en nýlega sendi Veiðifélag Laxár og Krákár áskorun til yfirvalda umhverfismála að brugðist verði við því ástandi sem ríkir á svæðinu. Verndarsvæði Mývatns og Laxár eru á rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir þau svæði sem eru í hvað mestri hættu á landinu, en á rauða listanum eru þau svæði sem þurfa sérstaka athygli og eru undir miklu álagi.

Fréttastofu hefur talsvert fjallað um breytingar á lífríki í vatninu og náttúrunni. Til einföldunar, verður hér horft aftur til ársins 2012. Vitanlega nær sagan lengra aftur, til dæmis ársins 1997 þegar bleikjustofninn í vatninu hrundi. Sumir telja að breytingarnar séu af mannavöldum og vísa þar meðal annars í áhrif frá kísilgúrverksmiðjunni sem starfrækt var við vatnið frá 1966 til 2004. Ekki eru þó allir sammála um að breytingar á vistkerfinu megi rekja þangað, hvort sem það er að öllu leyti eða hluta.

Mynd: RÚV / RÚV

Vorið 2012 varð mengun í Grjótagjá í Mývatnssveit. Vatnið í þessum fyrrum vinsæla baðstað var skyndilega orðið mjólkurhvítt. Árni Einarsson, líffræðingur sem hefur sérhæft sig í vistkerfi Mývatns, taldi að ástæðan fyrir litnum væri annað hvort borhola sem var boruð rétt ofan við gjánna í Bjarnarflagi eða baðlónið, Jarðböðin við Mývatn. Þremur árum síðar, sumarið 2015, kom upp svipuð mengun í Mývatni eins og komið verður inn á hér neðar.

Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir / RÚV / Kristín Sigurðardóttir

Ári síðar var greint frá því að kúluskíturinn í vatninu væri nánast horfinn. Náttúrundrið var friðað og hefur fundist í aðeins tveimur öðrum vötnum í heiminum, í Japan og Úkraínu. Þetta sumar fundust aðeins þrjár kúlur en þær höfðu þá horfið hratt árin á undan. Kúluskít var að finna í vatninu í milljóna tali og sagði Árni þá í samtali við fréttastofu að þetta væri stjórmál. Að mati Árna mátti rekja ástæðurnar til kísilnámsins af botni Mývatns, en einnig til losunar frá verksmiðjunni út í vatnið. 

Olíutankur fannst í vatninu

Í júní 2014 var tekin ákvörðun um að fjarlægja ekki olíutank sem fannst í vatninu. Leitað hafði verið að tanknum allt frá árinu 2004 þegar hann sökk í tengslum við starfsemi Kísiliðjunnar. Ekki var talið að mikil olía væru í tankinum og ekki er vitað hvort og þá hversu mikið af olíu hefur lekið úr honum. Talið var að of mikið rask yrði á lífríki vatnins, yrði tankurinn grafinn upp úr rúmlega 120 sentimetra þykku botnseti. Tankurinn situr því enn á botninum og er óumdeilt merki um mengun af mannavöldum.

Sama sumar fannst ekkert ef kúluskít í vatninu og því opinberlega lýst yfir að hann væri útdauður í vatninu. Árni Einarsson sagði þá að í grænþörungateppinu sem hafi verið á botninum hafi mikilvæg áta þrifist sem ekki sé lengur til staðar. Slíkt gæti átt sinn þátt í örlögum bleikjustofnins í vatninu, sem er heldur lítill þrátt fyrir tilraunir síðustu ár við að byggja hann upp að nýju. Einnig gæti brotthvarf þörunganna haft áhrif á minni andarstofna.

Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir / RÚV / Kristín Sigurðardóttir

Þau áhrif komu strax í ljós sumarið 2015. Sárafáir andarungar komust á legg við Mývatn og þar sem áður höfðu verið tugþúsundir unga voru nú aðeins nokkur hundruð. Hjördís Finnbogadóttir, landvörður við Mývatn, sagði í samtali við fréttastofu að ástæðan væri átuskortur, sem gerði það að verkum að ungarnir strádrepast eða að mæðurnar gæfust upp áður en þær kláruðu útungun.

Mynd: Facebook síða RAMÝ / Facebook síða RAMÝ

Seint í júlí varð svo vart við mengun í vatninu, sem fyrst var talið að væri efnamengun. Rétt eins og í Grjótagjá þremur árum áður, varð vatnið næst Reykjahlíð mjólkurhvítt og einkennilegt. Líkast því að hvítri málningu hefði verið hellt í vatnið. Mánuði síðar var það talist líklegasta skýringin, að liturinn væri tilkominn vegna súrefnisþurrðar. Engin mengandi efni bárust í vatnið samkvæmt efnagreiningu, heldur varð liturinn til við bindingu járns við lífrænar agnir í vatninu. 

Í vetur fóru svo fram kvikmyndatökur fyrir myndina Fast8 á ísilögðu Mývatni, en tökurnar eru með þeim umfangsmestu sem farið hafa fram hér á landi vegna erlendrar kvikmyndar. Ýmis áhættuatriði voru gerð á ísnum, eftirlíkingu bíls var sökkt og sprengingar og skothvellir heyrðust. Umhverfisstofnun taldi það þó allt innan leyfilegra marka, sem myndi ekki hafa áhrif á lífríkið í vatninu. Við tökurnar fóru tvær gröfur niður í gegnum ísinn og sukku að hluta, en Umhverfisstofnun úrskurðaði sömuleiðis að engin mengun hefði orðið vegna þeirra slysa.

Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir / RÚV / Kristín Sigurðardóttir

Sem fyrr segir, hefur umræðan verið afar hávær síðustu daga og meðal annars hefur formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Jón Gunnarsson, farið fram á að ríkisstjórnin bregðist við ástandinu líkt og um náttúruhamfarir sé að ræða. Þau viðbrögð fælu fyrst og fremst í sér bætta skólphreinsun, en sú framkvæmd er sveitarfélaginu Skútustaðahreppi fjárhagslega ofviða. Oddviti þess, Yngvi Ragnar Kristjánsson, segir að málið hafi verið rætt við umhverfisráðherra og fjárlaganefnd. Þar mæti sveitarfélagið skilningi, en því fylgi ekki aðgerðir.