Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Safneignir eiga sér ýmsar hliðar

Mynd: Hafnarborg / Hafnarborg

Safneignir eiga sér ýmsar hliðar

10.06.2018 - 10:14

Höfundar

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir að á afmælissýningunni 35/30 hafi þau Unnar Örn, sýningarstjóri, reynt að draga fram allar hliðar safneignarinnar, líka þær sem allajafna eru ekki sýndar.

Grunnur að safneign verður til

Í byrjun júní var sumarsýning Hafnarborgar opnuð, en með henni fagnar safnið ekki bara sumrinu heldur einnig tvöföldu afmæli; en það eru 35 ár liðin síðan apótekarahjónin, Sverrir Magnússon og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, færðu Hafnarfjarðarbæ húsnæði sitt að Strandgötu 34 að gjöf, ásamt listaverkasafni sínu. Fimm árum síðar var Hafnarborg formlega vígð þann 21. maí 1988. „Þau vildu koma því sem þau höfðu eignast í sínu lífi til komandi kynslóða. Sverrir sagði að honum fyndist rétta fólkið til að taka við því vera bæjarbúarnir sem höfðu verslað við þau alla sína tíð og gert það að verkum að þau höfðu eignast bæði húsið og stórt listaverkasafn.“

Þau sömdu við bæinn, 1983 um að gefa húseignina Strandgötu 34, ásamt listaverkasafni sínu og teikningu að viðbyggingu við húsið til bæjarins og stofna menningarmiðstöðina Hafnarborg og árið 1988 var nýbyggingin vígð „Þeir voru djarfir, kjörnu fulltrúarnir hér í Hafnarfirði á þessum tíma, og drifu í þessu og á fimm árum reis þetta glæsilega hús og hefur nú starfað hér í 30 ár,“ segir Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður safnsins.

Heill veggur af mikilvægum karlmönnum

Það fyrsta sem blasir við þegar gengið er inn í stóra salinn er málverkaþyrping á norðurveggnum. Þar hanga ábúðafullir karlmenn, uppábúnir og horfa djúpt í augu áhorfenda. Ein kona er í hópnum, en það er apótekarafrúin Ingibjörg Sigurjónsdóttir.

Þetta er vissulega kómísk sýn, í samhengi okkar samtíma, en Ágústa nefnir að sem forstöðukona safnsins hafi hún ekki geta leyft sér að henda gaman að safneigninni. Þess vegna hafi verið gott að hafa Unnar Örn með í sýningastjórateyminu, en þau stýrðu sýningunni í sameiningu. „Unnar er náttúrlega vanur í sínum eigin myndlistarverkum að taka safneignir og kryfja þær. Og hann var til dæmis mikill hvatamaður að því að sýna þessi portrett hérna. Ég var aðeins hrædd og svolítið andvaka, en svo lagaðist það.“

Það er sannarlega áhugavert hvernig nýtt samhengi getur breytt háalvarlegum verkum í eitthvað bráðfyndið og þessi veggur er ágætisdæmi um það, enda hefur hann vakið viðbrögð sýningagesta. Ágústu var bæði létt og skemmt þegar Pétrún Pétursdóttir, fyrsti formaður Hafnarborgar, rak augun í samkomuna á veggnum. „Hún stóð hér og hló og sagðist muna vel eftir því þegar þessi portrett voru dregin upp úr geymslum Hafnarfjarðarbæjar.“

Ekki bara sýningarvænu verkin

Vegginn prýða hinir ýmsu bæjarfulltrúar og stórmenni Hafnarfjarðarbæjar, en á næsta vegg hanga hins vegar portrett af fjórum konum, sem eru af allt öðrum toga. „Þær eru í öruggu umhverfi heimilisins, þær horfa ekki á okkur, gagnstætt því sem karlarnir gera,“ segir Ágústa en það getur verið vandasamt verk að búa til sýningu sem á að endurspegla heila safneign.

„Við vildum bæði draga fram góða hluti, myndlist sem fólk er vant að sjá og tengir við Hafnarfjörð og verk sem eru kanóníseruð í íslenskri myndlistasögu -- en svo vildum við líka draga fram hina hliðina á safnkostinum, því safnkosturinn verður til með stofngjöfinni sem taldi tæplega 200 verk, en svo eru verk sem voru í eigu Hafnarfjarðarbæjar og svo eru verk sem safnið hefur safnað.“

Safninu berast sömuleiðis gjafir, en skemmst er frá því að segja að nýlega fékk Hafnarborg afhenta stóra gjöf, með verkum Eiríks Smith. „Úr þessu verður safneign sem er mjög fjölbreytt og ekki bara verk sem maður getur kallað sýningarvæn eða góð verk heldur alls konar annað,“ segir Ágústa.

Sannleikurinn um safneignina

„Það var áhugavert að skoða þetta út frá alls konar kenningum, bæði listfræðilegum og safnafræðilegum. Við vorum mjög upptekin af kynjahlutföllum, en líka því að láta safneignina segja sannleikann um sjálfa sig.“

Ágústa segir að núorðið sé lögð áhersla á að söfn búi ekki til fegraða mynd af veruleikanum og þá hafi þeim fundist þau ekki heldur mega búa til fegraða mynd af safnkostinum. „Þess vegna sýnum við hér verk sem allajafna eru ekki sýnd. Stundum falla ákveðin verk að smekk samtímans og fá ekki að fara upp, en nú reynum við að taka á því og segja sannleikann, segir Ágústa og brosir út í annað.“

Tengdar fréttir

Hönnun

Japönsk hönnun í Hafnarborg

Klassísk tónlist

Klassísk söngtónlist heiðruð í Hafnarborg

Leiklist

Leikhústöfrar í Hafnarborg

Myndlist

Karlmennska í Hafnarborg