Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sæstrengurinn til Bretlands á borði forsetans

18.01.2016 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, áréttaði á fundi með breska fyrirtækinu Atlantic Superconnection Corporation á Bessastöðum í síðustu viku að kortleggja þyrfti að hve miklu leyti núverandi orkuver á Íslandi dugi fyrir sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Einnig þyrfti að kanna hvers konar virkjanir þyrfti til viðbótar fyrir sæstrenginn.

Þetta kemur fram á vef forsetaembættisins. Ólafur Ragnar átti fund með fulltrúum breska fyrirtækisins fyrir helgi. Fram kemur í dagskrá forsetans að fyrirtækið breska „vinni að athugun og kynningu á kostum þess að leggja sæstreng frá Bretlandi til Íslands í þeim tilgangi að styrkja kerfi hreinnar orku á Bretlandseyjum.

Á fundinum var fjallað um stöðu málsins á Bretlandi og á Íslandi, áhuga alþjóðlegra fjárfesta á þátttöku í fjármögnun strengsins sem og sjónarmið náttúruverndar á Íslandi og hagnað þjóðarinnar af slíkri tengingu. Meðal ráðgjafa fyrirtækisins er Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólafur Ragnar á fund með fulltrúum fyrirtækisins – í júní fyrir tveimur árum átti hann fund með fyrirtækinu. Fram kom í dagskrá forsetans að Hendry hefði setið þann fund. Hann undirritaði ásamt íslenskum stjórnvöldum minnisblað um athuganir Atlantic Superconnection Corporation á hagkvæmni þess að selja rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Bretlands.

 

RÚV greindi frá því í sumar að félagið hefði staðið fyrir rannsókn á hafsbotninum milli Íslands og Færeyja vegna mögulegs sæstrengs til Bretlands. Landsvirkjun kom ekki að þessari rannsókn – Landsvirkjun ásamt Landsnet hefur verið í samstarfi við dótturfyrirtæki National Grid sem dreifir rafmagni og gasi í Bretlandi.

Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra Íslands og David Camerons, forsætisráðherra Bretlands, hér á landi í október var samþykkt að setja á laggirnar vinnuhóp sem yrði falið að skoða möguleika þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands.