Sæstrengur hefði mikla þýðingu í hamförum

25.11.2018 - 13:59
Mynd með færslu
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Mynd:
Sæstrengur milli Íslands og meginlands Evrópu gæti haft mikla þýðingu ef til hamfara kæmi hér á landi og rafmagn yrði af skornum skammti, að mati Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets.

Staðsetning virkjana hér á landi hefur aðallega þróast út frá hagkvæmni sjónarmiðum og því hvernig iðnaður hefur byggst upp en ekki endilega út frá þjóðaröryggi, að sögn Guðmundar Inga. Hann segir að starfsemin hjá fyrirtæki eins og Landsneti gangi út á langtímahugsun. Samfélagið allt þurfi að hugsa málin út frá þjóðaröryggi, sérstaklega þegar kemur að viðkvæmum innviðum eins og orkumálum. Þessi mál eru meðal þeirra sem rædd voru á ráðstefnunni Fullveldi og þjóðaröryggi í Hörpu í gær. 

Sæstrengur frá Íslandi til meginlands Evrópu gæti haft mikla þýðingu ef alvarlegar náttúruhamfarir myndu dynja yfir, að sögn Guðmundar Inga. „Það getur í raun þýtt heil mikið vegna þess að ef við erum í miklum vandræðum hérna innanlands, ef til dæmis kæmi stórt eldgos eða eitthvað slíkt og mikið af orkuvirkjununum óstarfhæfar þá gætum við hugsanlega flutt inn orku frá meginlandi Evrópu, frá Bretlandi, ef hann er tengdur þangað. Slíkt varasamband gæti skipt sköpum fyrir okkur sem þjóð.“ 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi