Fimm sænskir fjölmiðlar hafa tekið höndum saman um að berjast gegn falsfréttum í aðdraganda sænsku þingkosninganna.
Ritstjóri Dagens Nyheter, stærsta dagblaðs Svíþjóðar segir að aldrei hafi verið eins mikið af falsfréttum og rangfærslum á samfélagsmiðlum og í aðdraganda kosninganna sem verða 9. september.
Af þeim sökum hefur blaðið tekið höndum saman við fjóra aðra fjölmiðla í landinu, þar á meðal sænska ríkissjónvarpið og ríkisútvarpið, og stofnað vefsíðuna faktisk.se þar sem lögð verður áhersla á að sannreyna margt af því sem sett er í dreifingu í gegnum samfélagsmiðla og í fréttum fjölmiðla.
Martin Jönsson, ritstjóri Dagens Nyheter, segir að fleiri erlendir aðilar reyni að hafa áhrif á kosningabaráttuna en áður og hvaða málefni séu rædd í baráttunni.