Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sænski herinn ánægður með herskyldu

10.03.2017 - 16:54
Mynd: SVT / SVT
Yfirstjórn sænska hersins fagnar fyrirætlunum um að taka herskyldu upp að nýju. Nokkrir erfiðleikar hafa verið með að fá nægilega marga unga Svía til að ganga í herinn. Micael Bydén, yfirmaður heraflans, segir að atvinnuhermenn og herskyldir, þjóni saman í framtíðinni.

 

Má muna fífil sinn fegurri

Sænski heraflinn má muna sinn fífil fegurri. Svíar hafa ekki átt í styrjaldarátökum við aðrar þjóðir í yfir 200 ár eða frá því í Napóleonsstyrjöldunum í upphafi 19. aldar. Svíar, sem voru hlutlausir alla 20. öldina og eru fram á þennan dag, héldu lengst af úti öflugum herafla. Eftir hrun Sovétríkjanna héldu ráðamenn í Stokkhólmi að engin hernaðarógn stafaði að Svíum. Á sama tíma áraði illa í efnahagslífinu og því voru útgjöld til varnarmála skorin mjög harkalega niður. Herskipum, flugvélum og öðrum hernaðartækjum var fækkað mjög.

Ógn að austan á ný

En nú eru breyttir tímar. Rússar hafa innlimað Krímskaga, eflt herinn mjög og troða illsakir við granna sína. Þetta hefur breytt hugsunarhætti Svía og raunar Finna líka. Báðar þjóðirnar hyggjast nú efla varnir sínar. Micael Bydén, yfirmaður sænska hersins, telur þó ekki yfirvofandi hættu á árás á Svíþjóð. Svíar eru engu að síður að efla varnir sínar og hafa meðal annars sent herlið til Gotlands, en þar höfðu hermenn ekki haft fast aðsetur í nokkur ár. Bydén segir að sé nauðsynlegt að efla varnir landsins. 

Herskyldan tekin upp að nýju

Síðustu ár, eða frá 2010, hafa aðeins atvinnuhermenn gegnt þjónustu í Svíþjóð en lög um herskyldu hafa þó verið í gildi. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að virkja herskylduákvæðið. Ekki verður gerður greinarmunur á kynjum segir Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra. Hann vonast til þess að konum í hernum fjölgi verulega á næstu árum. Bydén yfirhershöfðingi segir að herskyldir bætist við þá sem ganga sjálfviljugir í herinn. Herinn fagni viðbótinni og auknum sveigjanleika.

Verður líkt og í Noregi

Hultqvist landsvarnarráðherra segir að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við mannfæð heraflans. Litið hafi verið til Noregs þar sem atvinnuhermenn og herskyldir gegni þjónustu saman. Alls verður 13 þúsund sænskum ungmennum sem fædd eru 1999 og 2000 gert að gefa sig fram til herþjónustu. Fjórum þúsundum þeirra verður gert að ganga í herinn. Vonast er til að einhver þeirra ákveði að halda áfram í hernum að herskyldunni lokinni.